3.9 C
Selfoss

Veitingastaðurinn Matarlyst opnar á Selfossi

Vinsælast

Fyrir skömmu opnaði veitingastaðurinn Matarlyst á Austurvegi 35 á Selfossi. Að staðnum standa systkinin Davíð Örn Bragason og Kristín Arna Bragadóttir. „Áherslurnar á staðnum eru kaffið og maturinn sem við erum að bjóða upp á. Þar má meðal annars finna dönsk smurbrauð, spænsk smurbrauð. Þá eru aðalréttir eins og hamborgarar og sjávarréttasalat sem dæmi. Svo eru eftirréttir og sætir bitar á boðstólnum. Barinn er svo opinn og auðvelt að finna sér eitthvað af því úrvali sem þar er að finna,“ segir Davíð Örn.

Góður andi og stemning mikilvæg

„Fólk hefur tekið vel í þessa nýjung og það hefur verið nóg að gera. Við erum eiginlega alveg orðlaus yfir þessum góðu viðtökum. Það hefur verið fullbókað hjá okkur allar helgar. Við erum bara ótrúlega þakklát Selfyssingum fyrir að hafa tekið okkur svona vel,“ segir Kristín Arna aðspurð um viðtökurnar. Yfir staðnum er hlýlegur blær og fólk situr og spjallar yfir veitingunum. „Okkur langar mikið til þess að vera með góða og notalega stemningu. Við leggjum áherslu á að það sé gott að koma hingað og það sé hugguleg stemning,“ segja systkinin. Þeir sem vilja nálgast frekari upplýsingar geta flett upp kaffimatarlyst á instagram og Facebook.

Nýjar fréttir