-4.3 C
Selfoss

Broddmjólkurskot til heilsueflingar

Vinsælast

Guðmundur Ármann og kona hans Birna G. Ásbjörnsdóttir eru eigendur sprotafyrirtækisins Brodds. Hugmyndin gengur út á það að nota afurðina brodd til góða fyrir meltingarkerfið. Broddmjólk er fyrir þá sem ekki þekkja fyrsta mjólkin eftir að kýr bera kálf. Verkefnið hlaut brautargengi í Icelandic Startup og var valið til að taka þátt í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita – frá hugmynd í hillu.

Áhuginn eykst því meira sem við rannsökum þetta

„Byrjunin er kannski sú að það hefur lengi verið draumur hjá okkur hjónunum að vinna meira saman með okkar ólíka bakgrunn. Þá höfum við í gegnum tíðina, þegar við komumst í broddmjólk, notað hana eins og hún kemur fyrir sem skot á morgnana. Yfir morgunsopanum kom svo upp sú hugmynd hvort að við gætum gert eitthvað með þetta. Upp úr því fórum við að ýta boltanum af stað. Við höfum svo viðað að okkur upplýsingum og gögnum um þetta í gegn um tíðina og eftir því sem við rannsökuðum málið betur því áhugasamari urðum við með að gera úr þessu vöru,“ segir Guðmundur Ármann.

Hugmyndin að taka afurð sem ekki er nýtt og nýta hana

Samkvæmt Guðmundi er broddmjólkin ekki nýtt að fullu. Hugmyndin er að taka hana og nýta betur og gera úr henni vöru sem hægt væri að kalla orkuskot. „Hugmyndin er að búa til einingar sem eru hentugar fyrir fólk til þess að neyta með reglulegum hætti.“ Þegar ég spyr Guðmund um rannsóknir á ágæti broddmjólkurinnar segir hann: „Það eru ekki neinar íslenskar rannsóknir sem hafa verið gerðar um þetta. Við erum aðeins byrjuð að láta rannsaka þetta fyrir okkur með tilliti til þess hvaða áhrif þetta hefur á fólk til góðs. Það eru ekki komnar niðurstöður en rannsóknirnar lofa mjög góðu. Við erum að nota þær upplýsingar sem þegar hefur verið aflað og svo vinna að því að afla frekari upplýsinga með rannsóknum. Allt í því augnamiði að koma með nýja vöru á markað sem er íslensk broddmjólk fólki til heilsueflingar,“ segir Guðmundur.

Heppin að komast um borð í hraðalinn

Guðmundur og Birna eru afar ánægð að komast í hraðalinn. „Það eru kannski einhver 70 verkefni sem sækja um en 10 eru valin. Það er auðvitað mikill heiður og við auðmjúk og þakklát fyrir það. Innan hraðalsins er svo breiður hópur sem er að koma inn og mér skilst allskonar aðgangur að aðstoð og hjálp við taka svona hugmynd á mismunandi stigum sem styður við frumkvöðla í því að klára hugmyndina og koma henni á markað. Þannig að við förum í þetta í haust og við bindum vonir við það að komast þokkalega langt áfram,“ segir Guðmudur að lokum. -gpp

Nýjar fréttir