1.7 C
Selfoss

Uppbygging, líf og gleði í Hveragerðisbæ

Vinsælast

Mikil uppbygging á sér stað í Hveragerði um þessar mundir. Sé ekið um bæinn má sjá framkvæmdir hvar og hvert sem litið er. Verið er að gera nýjar götur uppi í svo kölluðu Kambalandi, í gamla bænum rísa ný hús þar sem áður voru aflögð gróðurhús og garðyrkjustöðvar. Byggingarnar eru af ýmsum toga og henta allavega fólki, en bærinn hefur verið vinsæll og allt selst sem fer á sölu. Við litum við hjá Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra Hveragerðisbæjar og fórum yfir stöðuna á framkvæmdum í Hveragerði um þessar mundir og hvernig það er að búa í Hveragerði.

Byggingar rísa í öllum hverfum bæjarins

„Það er verið að byggja svo til í öllum hverfum bæjarins. Ég man aldrei eftir svona mikilli uppbyggingu á einum og sama tímanum. Byggðin er að þéttast mjög mikið. Það er verið að byggja á reitum þar sem áður voru garðyrkjustöðvar. Þá nýtur Hveragerði þeirrar sérstöðu að í miðbænum var mikið af mjög litlum húsum á mjög stórum lóðum. Eigendur þessara lóðaréttinda eru að þétta hjá sér og óska eftir auka byggingareitum á baklóðum. Þá er verið að byggja í öllum útjöðrum bæjarins, eða í farvatninu að byrja að byggja,“ segir Aldís.

Þegar við skoðum Landupplýsingavefinn sést að þetta er laukrétt. Það er verið að byggja í öllum hornum bæjarins. Byggingarnar eru á hinum ýmsu byggingarstigum, sumstaðar fólk að flytja inn,  eða þá að verkefnið er enn á teikniborðinu. „Hérna austast í bænum mun koma gata sem við köllum Hólmabrún. Það er ekki ólíklegt að það verði farið í úthlutun á þessum lóðum á næsta ári eða þarnæsta. Þessar lóðir eru alveg einstakar útsýnislóðir og fólk mun njóta gæðanna af nálægð við útivistarsvæðin, með útsýni yfir Varmána og sólarupprásina beint í æð.“ Á Edenreit hafa hlutirnir gerst hratt og íbúðir þar vinsælar, enda blokkirnar smekklegar. „Það er gert ráð fyrir því að á reitnum verði um 80 íbúðir. Helmingurinn af því er að rísa, eða er risinn og fólk flutt inn,“ segir Aldís.

Blönduð byggð í Kambalandinu

Kambalandið var keypt af Hveragerðisbæ en svæðið var eignaland í eigu annarra. „Ég tel að það hafi verið gríðarlegt heillaskref fyrir Hveragerðisbæ sem þar með gat stjórnað uppbyggingunni og uppbyggingarhraðanum. Við breyttum deiliskipulaginu sem var í gildi þarna áður með það fyrir augum að fjölga aðeins íbúðunum og hafa fjölbreyttara úrval af búsetukostum,“ segir Aldís. Í Kambalandinu verða lágreist þriggja hæða fjölbýlishús, talsverður fjöldi af raðhúsum og einbýlishús.

Raunverulegur valkostur fyrir fólk að búa fjarri höfuðborginni

Talið berst að því hverskonar íbúar það eru helst sem sækja til bæjarins segir Aldís: „Það er allskonar fólk. Það er að flytja mjög mikið af íbúum hingað frá höfuðborginni og við finnum það. Það er orðinn raunverulegur valkostur fyrir fólk sem býr og vinnur á höfuðborgarsvæðinu að flytja hingað austur og vinna áfram á höfuðborgarsvæðinu. Síðan kennir Covid-19 okkur að það að er líka hægt að vinna heima og það er líka verið að kenna vinnustöðum landsins það mjög hratt að störf án staðsetningar eru raunverulegur valkostur. Það er ekki endilega nauðsynlegt að það sitji allir við skrifborð á sama tíma á sama stað í sama húsi.“ Við Aldís ræðum þetta um stund og erum sammála um að samfélaginu hafi verið sparkað mjög hratt inn í nýja tíma og að áhrifanna komi til með að gæta austan við Hellisheiðina mun hraðar en við gerum okkur almennt grein fyrir. Talandi um atvinnu, þá er nýtt iðnaðarhverfi að rísa fyrir neðan þjóðveginn. „Farðu þarna niður eftir og þú verður dálítið hissa“, segir Aldís við mig og brosir út í annað.

Vel tekið á móti íbúum sem vilja flytja til Hveragerðis

„Það hefur skapast ofboðslega skemmtilegt samfélag hér í Hveragerði. Fólk heilsast á götu, því er ekki sama um náungann og jákvæður andi. Mér finnst það vera ástæða þess að hversu vel við komum út úr ánægjuvoginni. Við erum það sveitarfélag á Íslandi þar sem íbúar eru hvað ánægðastir með þjónstuna.“ Við spyrjum áfram hvernig það sé að koma sem nýr íbúi til Hveragerðis. Aldís er ekki lengi að svara og segir: „Það er tekið mjög vel á móti nýju fólki. Ég heyri ekki annað en langsamlega flestum líkar afskaplega vel. Við njótum þeirra gæða ennþá að vera tiltölulega lítið sveitarfélag þar sem það er einfalt að tilheyra og stutt í alla þjónustu.

Nýjar fréttir