-5 C
Selfoss

Sundhöll Selfoss sextíu ára

Vinsælast

Þann 24. júlí 1960 var Sundhöllin á Selfossi vígð. Á afmælisdeginum 24. júlí sl. var slegið til afmælisveislu þar sem árunum 60 var fagnað með pompi og prakt. Meðal annars hélt Helgi Sigurður Haraldsson, forseti bæjarstjórnar ræðu og fór m.a. yfir það hvernig laugin komst á koppinn. Þá flutti tónlistarfólkið Karítas Harpa og Alexander Freyr nokkur vel valin lög fyrir áheyrendur. Þeir sem sóttu laugina heim komust frítt ofan í laugina. Að auki var boðið upp á súkkulaði köku og kaffi eins og hver gat í sig látið.

Pétur og Marteinn syntu heiðurssund þá og nú

Þeir Pétur Kristjánsson og Marteinn Sigurgeirsson voru í hópi þeirra ungmenna sem fyrst stungu sér í sundlaugina að lokinni vígsluræðu. Sigurður Óli Ólafsson, þáverandi oddviti sem hélt ræðuna og lýsti laugina formlega. Þá stungu sér til sunds nokkur ungmenni og þar á meðal þeir félagar Pétur og Marteinn sem syntu vígslu sundið. Þeir endurtóku leikinn á sextíu ára afmæli laugarinnar og syntu heiðurssund í tilefni dagsins við fögnuð viðstaddra. Þeir Pétur og Marteinn eru ekki óvanir að synda við hátíðleg tækifæri í sögu laugarinnar en þeir syntu einmitt heiðurssund þegar ný aðstaða laugarinnar var tekin í notkun 2015.

Látlaus straumur fólks frá fyrsta degi

Það var 24. júlí 1954  sem framkvæmdir við Sundhöllina hófust en það var þáverandi oddviti, Sigurður Óli Ólafsson sem kom verkefninu í framkvæmd. Hann tók sjálfur fyrstu skóflustunguna að verkinu. Verkið tók nákvæmlega 6 ár upp á dag, en það þótti skemmtilegt að svo skyldi hitta á. Þann 24. júlí 1960 var Sundhöllin vígð. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram: „Í dag hefur verið látlaus straumur fólks í Sundhöllina, sem fær vatn frá hitaveitunni, og hefur orðið að takmarka aðganginn. Baðverðir eru Hörður Óskarsson frá Hafnarfirði og frú Karen Gestsson, Selfossi. Er þetta fyrsta almenningssundhöllin hér í austursveitum og er kostnaður við hana talinn vera um 3 milljónir. Fólk hér á Selfossi og í nágrenni fagnar þessum merka áfanga og er mikill fengur að slíkri stofnun fyrir hið ört vaxandi kauptún og æsku þess.“ Vinsældir laugarinnar hafa síst dvínað en um 320 þúsund manns fara í laugina á hverju ári.

Fullkomin aðstaða byggð á góðum grunni

Laugin hefur tekið nokkrum breytingum frá því að hún reis fyrst, eins og kunnugt er. Nýjustu breytingarnar voru árið 2015 en þá var ný og glæsileg viðbygging opnuð. Hún gjörbylti allri aðstöðu laugarinnar, sem komin var til ára sinna. Þá var bætt var við barnalaug inni, nýrri afgreiðslu og mun stærri búningsklefum. Í Sundhöll Selfoss er barna- og 18 metra innilaug, 25 metra útilaug, barnalaug með þremur rennibrautum, vaðlaug, vatnsgufa, sauna og heitir og kaldir pottar. Fjórir búningsklefar eru við sundhöllina, tveir inniklefar og tveir útiklefar, sér búningsaðstaða er fyrir fatlaða í inni- og útiklefum. Þá rekur World Class heilsuræktarstöð á efri hæð byggingarinnar.

 

 

 

Nýjar fréttir