-7.7 C
Selfoss

Alltaf þess virði að geyma síðasta kaflann til næsta daga

Vinsælast

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Var að klára Sauðfjárávarpið eftir gamlan og kæran vin Hákon Jens Behrens, var að lesa hana örugglega í þriðja skiptið vegna þess að mér finnst ég finna eitthvað nýtt í henni í hvert sinn auk þess að vera skemmtileg og fyndin. Ég er nýbúin með Húshjálpina eftir Kathryn Stockett, las hana vegna þess að hún kom upp úr kassa við tiltekt ásamt bókinni 11 mínútur eftir Paulo Coelho. Er hálfnuð með hana og skil ekki af hverju ég hef ekki lesið hana áður. Frábær saga með yndislegri sýn á mannlega eiginleika.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég er alæta á bækur, elska ef þær koma á óvart en finnst stundum gott að lesa eitthvað fyrirsjáanlegt. Ég get auðveldlega grátið yfir sorglegum endi eða hlegið með söguhetjum vegna vandræðalegra aðstæðna. Karítas án titils og Óreiða á striga eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur eru mér sérstaklega hugleiknar vegna þess að ég bæði grét og hló við lestur þeirra og ég reyni að lesa þær reglulega. Musteri óttans eftir Guðmund Daníelsson sat líka lengi í mér og kom verulega á óvart við lestur.

Áttu þér uppáhalds barnabók?

Langar að segja Bróðir minn Ljónshjarta en held að sú bók hafi í raun ekki hreyft jafnmikið við mér og til dæmis Dísa ljósálfur eða Bláskjár. Það var mikið lesið fyrir mig í æsku en ég byrjaði líka mjög snemma að stauta mig fram úr textum sjálf og var orðin fluglæs frekar ung að árum. Ég vakti sundum heilu næturnar og las og oft og tíðum þurfti að biðja mig um að leggja bókina frá mér við matarborðið, ekki ólíkt því sem gerist með snjalltækin í dag.

Hvernig myndirðu lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég er afskaplega duglega að lesa á sumrin og get gleymt mér heilu dagana við lestur. Elska að fara í útilegur og liggja fyrir utan tjald eða inni með einhverja yndisleg bók og auðvitað með gott rauðvín og osta á kantinum. Á veturna þarf ég að halda mér við efnið og byrjaði því með Storytel síðasta vetur. Það gekk nú ekkert sérstaklega vel því ég gat illa haldið mér við efnið og var fljótlega komin með fimm til átta bækur á listann og ekki hálfnuð með eina einustu. Bæti úr því næsta vetur.

Einhverjir uppáhalds rithöfundar?

Kristín Marja Baldursdótir og Ólafur Jóhann Ólafsson ná alltaf að hrífa mig með sér og ég á erfitt með að leggja frá mér bækur þeirra. Jenny Colgan semur bækur sem láta manni alltaf líða vel og það er svo ljúft að lesa um ástir og örlög í bókunum hennar um Litla bakaríið við Strandgötu eða bókabúðina í hálöndunum. Einnig er Paulo Coelho með magnaða frásagnargáfu og ég elska það sem ég hef lesið eftir hann. Annars er auðvitað mjög gaman að bókum Yrsu og Arnaldar en þau hafa ekki haldið fyrir mér vöku á sama hátt og hin.

Hefur bók rænt þig svefni?

Já, margoft. En ég er smátt og smátt að læra að njóta þess að lesa og geymi jafnvel síðasta kaflann til næsta dags. Það getur verið erfitt en er eiginlega alltaf þess virði.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ég myndi skrifa smásögur um það að alast upp á Íslandi. Um lífið og tilveruna – allt og ekkert. Myndi jafnvel semja örsögur og ljóð. Eða, ef tími er til, henda í eina góða skáldsögu með sögulegu ívafi. Já ég held að það sé málið að skrifa skáldsögu byggða á sönnum atburðum. Það er örugglega málið.

Nýjar fréttir