-1.1 C
Selfoss

Spennandi ljósmyndasýning á Stokkseyri með íbúum sveitarfélagsins

Vinsælast

Ákaflega spennandi ljósmyndasýning er nú í Gallery Stokk á Stokkseyri. Sýningin ber nafnið Heima en það er Hanna Siv Bjarnardóttir sem heldur sýninguna. Hanna Siv heimsótti nokkra af eldri íbúum Stokkseyrar og tók myndir af þeim á heimili sínu og af hluta heimilis þeirra. Sýningin byrjaði sem skólaverkefni í Ljósmyndaskólanum en vatt svo upp á sig.

Ætlar að reyna að mynda alla Stokkseyringa 60 ára og eldri

„Þetta byrjaði sem verkefni þegar ég var í ljósmyndaskólanum. Þá fór ég heim til nokkurra og tók af þeim portrett myndir og myndaði heimilin þeirra. Svo þróaðist þetta út í það að ég ákvað að reyna að mynda alla Stokkseyringa 60 ára og eldri. Ég er ekki búin að því ennþá en það er planið að gera bók með öllum og sýningin núna er hluti af því verkefni,“ segir Hanna Siv. Aðspurð að því hvernig fólk taki henni segir hún að flestir taki verkefninu ótrúlega vel.  „Ég vona að ég fái engin nei á endanum, nokkrir hafa sagt nei, en svo hef ég fengið að koma seinna. Auðvitað fer þetta eftir því hvernig stendur á hjá fólki. Sumir hafa áhyggjur af því að ég sé að fara að mynda draslið, en þegar ég sýni fólki hvað ég er að fara að gera þá kviknar áhuginn,“ segir Hanna Siv.

Sýningin sýnir persónuleika fólks

Sýningin er byggð upp af portrett myndum af fólkinu og svo portrett af heimilum þeirra sem hún heimsækir „Mér finnst það pínu sýna persónuleika fólks, hverju þú safnar að þér og hverju þú heldur eftir. Ég kannast við allt fólkið sem ég heimsótti en hafði komið heim til fæstra. Það er sérstök upplifun að koma í heimsókn til alls þessa fólks og sjá hvernig þau hafa komið sér fyrir,“ segir Hanna Siv að lokum. Það er óhætt að mæla með því að gera sér ferð niður á Stokkseyri og líta við Heima hjá fólkinu sem þar býr. Einkar persónuleg og skemmtileg sýning frá mannlífinu á Stokkseyri.

 

 

Nýjar fréttir