-6.6 C
Selfoss

Fagháskólanám fyrir starfsfólk á sunnlenskum leikskólum

Vinsælast

Háskólafélag Suðurlands/HfSu, Háskóli Íslands og sveitarfélög á Suðurlandi hafa átt í samstarfi um skipulagningu fagháskólanáms í leikskólafræðum fyrir starfsfólk leikskóla. Árið 2018 fór af stað hópur 10 nemenda í tilraunaverkefni sem fékk nafnið „Fagháskólanám í hagnýtum leikskólafræðum“. Sá hópur kláraði námið núna í vor og var ákveðið að kanna hvort áhugi væri hjá nýjum hópi að hefja nám á hausti komanda. Námið hefur að sjálfsögðu þróast og mótast yfir þessi tvö ár og meðal þess sem hefur breyst er að kúrs um leikskólafræði kemur fyrr inn í námið og utanumhaldið verður eflt. Námið er enn sem áður hagnýtt 60 ECTS starfstengt nám á háskólastigi.

Námið er hugsað sem fjarnám og verða staðlotur alla jafna haldnar á Suðurlandi. Kennslufræðileg nálgun byggir á virkri þátttöku nemenda, sköpun lærdómssamfélags, og sterkum tengslum fræða og fagvettvangs. Kennsluaðferðir eru fjölbreyttar og felast m.a. í vendinámi, einstaklings- og hópa- vinnu, vettvangsferðum og valdeflingu hvers nemanda.

Háskóli Íslands stóð fyrir rafrænum kynningarfundi á dögunum þar sem fyrirkomulagið var kynnt og spurningum áhugrasama starfsmanna var svarað og í kjölfarið var ákveðið að opna fyrir skráningu. Eins og áður sagði er stefnt að því að hefja námið í haust náist saman tilskilinn hópur.

Nýjar fréttir