-6.9 C
Selfoss

Góð hugmynd sem varð að veruleika

Vinsælast

Sannkallað gæfuspor var stigið þegar Hjörtur Jónsson var ráðinn hafnarstjóri Þorlákshafnar en hann hóf störf í ársbyrjun 2014.  Hjörtur er víðsýnn og metnaðarfullur maður og undir hans stjórn hefur höfnin umbreyst eins og rekstrartölur sýna og sanna.  Þau eru ekki mörg verkefnin sem hafa haft jafn afgerandi jákvæð samfélagsleg áhrif og endurbæturnar á höfninni sem byrjað var að tala fyrir samkvæmt hugmynd Hjartar vorið 2014.  Þessi jákvæðu áhrif ná langt út fyrir nærsvæði Þorlákshafnar.  Það að fá slíka hugmynd gerir hana ekki að veruleika en til að svo verði verður hún að vera raunsæ, verulega vel útfærð með sterkri framtíðarsýn og haldið frá kastljósi fjölmiðla.  Allur undirbúningur þessarar hugmyndar var með þeim hætti og vel var haldið utan um framkvæmdina.  Skipulega var unnið að öflun verkefna allt frá byrjun sem skilaði t.a.m. samningi við Smyril Line sem ekki byggði á neinum tilviljunum og óhætt er að segja að breytt hafi ásýnd Þorlákshafnar.

Sögunni allri er hægt að fletta upp í ítarlegum greinargerðum með fjárhagsáætlunum á síðasta kjörtímabili á vefsíðu Ölfuss, olfus.is.  Það er gaman að sjá að Þorlákshöfn vex og dafnar í takti áætlanir sem þá voru gerðar og að framtíðarsýnin er að teiknast upp eins og við sáum hana fyrir 6 árum síðan.  Eftirfarandi er tekið úr greinargerðinni sem skrifuð var haustið 2015: „Með framangreindum framkvæmdum, er áætlað að stærri skip geti athafnað sig innan hafnar sem opnar á möguleika á að fá inn stærri fragtskip en nú, skemmtiferðaskip sem alls ekki koma í dag og einnig stórar vöru- og fólksferjur. Auk þess sem þjónustugetan við núverandi viðskiptavini myndi aukast verulega strax.“  Framtíðarsýnin hefði vart geta verið betur sett á blað í ljósi sögunnar.  Sérfræðingarnir sem komu að gerð þessara greinargerða eða öllu heldur stefnumörkun og nefna má auðlindastefnu, voru starfsfólk sveitarfélagsins í samstarfi við kjörna fulltrúa.  Þegar slík samvinna og virðing er viðhöfð verða til samfélagsleg verðmæti.

Það er áhugavert að fara yfir nokkrar tölulegar staðreyndir og samanburð úr ársreikningum.  Árið 2010 var Þorlákshöfn 11. stærsta höfn landsins í tekjum talið, 2016 var hún í 10. sæti og 2018 var hún í 8. sæti.  Tekjur Þorlákshafnar hafa vaxið hlutfallslega meira frá árinu 2016 en tekjur þeirra hafna sem fyrir ofan eru á listanum.  Samanburður vegna 2019 liggur ekki fyrir en ljóst er að Þorlákshöfn heldur áfram að vaxa og ekki er útlit fyrir annað næstu árin.  Þetta gerist þrátt fyrir efnahagsleg áföll og fordæmalausa tíma sem sýnir hversu verðmæt þessi hugmynd er sem lögð var á borð í Ráðhúsi Ölfuss í byrjun árs 2014.  Eftirfarandi mynd segir meira en mörg orð:

Gunnsteinn R. Ómarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ölfuss.

Nýjar fréttir