-6.9 C
Selfoss

97% fækkun á gistinóttum á Suðurlandi í apríl

Vinsælast

Í tölum frá Hagstofu Íslands yfir gistinætur í apríl kemur fram að á árinu 2019 hafi verið 54.266 gistinætur á hótelum á Suðurlandi. Í apríl 2020 voru þær 1.895 eða 97% færri. Framboð á hótelherbergjum á Suðurlandi var 2.177 í apríl 2019 en 1.344 í apríl 2020.  Heildarfjöldi greiddra gistinátta á landinu öllu í apríl síðastliðnum dróst saman um 96% samanborið við apríl 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 97% og um 93% á gistiheimilum. Þá var 93% fækkun á öðrum tegundum gististaða (farfuglaheimilum, orlofshúsum o.s.frv.).

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 20.800 í apríl en þær voru um 519.000 í sama mánuði árið áður. Um 68% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 14.200, en um 32% á erlenda gesti eða um 6.600 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 13.500, þar af 9.200 á hótelum. Gistinætur á öðrum tegundum gististaða voru um 7.300.

Skyndileg fækkun brottfara frá Keflavíkurflugvelli olli því að ekki náðist að safna úrtaki fyrir framkvæmd landamærarannsóknar Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands í apríl. Af þeim sökum reyndist ekki unnt að áætla fjölda gistinátta erlendra ferðamanna utan hefðbundinnar gistináttaskráningar í apríl, þ.e. á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður, í bílum utan tjaldsvæða eða innandyra þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu. Ráðgert er að hefja áætlun á gistinóttum erlendra ferðamanna utan hefðbundinnar gistináttaskráningar að nýju þegar framkvæmd landamærarannsóknar kemst aftur í fyrra horf.

 

Nýjar fréttir