-12.2 C
Selfoss

Það fljúga vængir í Orgelsmiðjunni á Stokkseyri

Vinsælast

Orgelsmiðjan á Stokkseyri er fyrir allra hluta sakir mjög merkilegur staður. Þar eru smíðuð heilu pípuorgelin sem fá svo fasta búsetu í einhverjum af kirkjum landsins þegar búið er að klára smíðina. Það er önnur og merkileg saga. Við erum ekki komin á Stokkseyri til að kynna okkur merkilega sögu orgelssmiðsins sem þar vinnur. Nei, þar inni er einnig ungt par við ýmiskonar iðju, tengt bæði tónlist og myndlist/skúlptúrlist. Annað þeirra, Myrra Rós Þrastardóttir, á heiðurinn af því að framleiða fagurlega gerða vængi úr afgangs efni sem fellur til við orgelsmíðina.

Völdu að festa rætur á Stokkseyri

Ég stíg inn úr dyrunum í gamla frystihúsinu niðri við höfn á Stokkseyri. Fyrir innan er dauf tónlist úr harmóníum orgeli sem stigið er af Júlíusi Óttari Björgvinssyni sem er í óða önn að laga það. Júlíus er sonur Björgvins sem er orgelsmiðurinn í Orgelsmiðjunni, en Júlíus hefur starfað við hlið hans síðan hann var ungur drengur. Það kallað glaðlegt halló, komdu inn. Þar er Myrra Rós mætt brosandi og glaðleg, eins og hún er alltaf. Þau Myrra og Júlíus fluttu á Stokkseyri úr bænum eins og svo margir til að losa sig undan oki leigusala og komast í eigið húsnæði og geta haft næði. Þau heilluðust af Stokkseyri og segja mér að fólkið á Stokkseyri hafi tekið þeim vel. „Vinir okkar sem koma í heimsókn skilja vel af hverju við völdum að fara hingað og festa rætur,“ segja þau bæði.

Fór að horfa í það sem til fellur og hugmyndin varð að veruleika

Hvernig kom það til að þú fórst að skapa vængi úr tré? „Jú, ég var dálítið í tónlist en var hætt að hafa mikinn áhuga á því að spila seint á kvöldin. Ég fór því að koma hingað með þeim feðgum í Orgelsmiðjuna og fór að finna mér eitthvað að gera svo ég væri ekki bara heima ein. Það fór svo þannig að ég var að skoða í afgöngum sem falla til við orgelsmíðina og fór að þróa hugmynd sem ég hafði verið með í maganum dálítið lengi. Hún var um svona vængi sem spretta út úr veggjum. Það var svo tengdapabbi sem var fyrstur manna til að sjá að þarna væri góð hugmynd og hvatti mig áfram. Hann gaf mér svo stað við vinnuborð með fallegasta útsýninu í húsinu. Út yfir sjóinn. Fyrstu vængirnir voru mjög frumstæðir, en ég prófaði mig áfram bæði með efni og aðferðir. Þetta er í raun búið að vera í þróun síðan 2016 þegar við byrjuðum á þessu og er í raun enn í þróun,“ segir Myrra Rós. Endurvinnsla spilar stórt hlutverk í lífi Myrru Rósar og hún leitast við að vinna með það í verkum sínum. „Ég er með það leiðarljós að ég endurvinn mjög mikið. Ég vil gera list sem er ekki rándýr. Ég reyni að stilla verðinu eins mikið í hóf og mér er unnt því mér finnst mikilvægt að það geti allir notið sem vilja.“

Er bara með annað heilahvelið virkt

Þegar talið færist að því hvaðan sköpunarkrafturinn fyrir listinni kemur segir Myrra: „Ég leyfi mér stundum að segja að ég sé ekki góð í neinu nema að skapa eitthvað, hvort sem það er tónlist eða annarskonar listform. Ég er bara með annað heilahvelið virkt, þetta sem stýrir listinni“ segir hún og skellir uppúr. Ég horfið vantrúaður á hana en hún heldur áfram: „Ég gæti ekki bjargað mér fyrir horn með stærðfræði, en ég fæ eitthvað út úr því að skapa, einhverja ró og hugleiðslu.“ Vængirnir hafa verið mjög vinsælir og Myrra hefur unnið langa daga til þess að eiga vængi handa fólki. Ég spyr hana út í viðtökurnar um  vængina sem fljúga nú um í Orgelsmiðjunni undir nafninu Fjaðrafok.  „Ég er ofsalega glöð með að fólk hafi áhuga á að hengja þetta upp heima hjá sér,“ segir Myrra og hlær. „Þetta gerðist eiginlega óvart. Það kom bara strax eftirspurn og ég er lukkuleg með það.“ Á vinnuborðinu við gluggann út á sjó eru haganlega gerðir vængir í framleiðslu sem verða brátt tilbúnir að fara á nýtt heimili.

Það skiptir máli að finna stuðning samfélagsins

Ég kemst ekki hjá því að spyrja þau að því hvernig var að flytja frá Reykjavík og á Stokkseyri. Hvaða áhrif það hefði á þau sem listafólk. „Það tekur smá tíma að venjast því að búa úti á landi. Aðallega að ná niður tempóinu. Það hægist svona á tempóinu hjá manni. Mér finnst stundum þegar fólk kemur hingað að annaðhvort getur fólk ekki hugsað sér að búa á svona stað eða þráir það þegar það sér hvað lífið okkar er búið að breytast,“ segir Myrra. „Það kom manni kannski á óvart þegar að maður hélt að margir vinir manns myndu segja við mann „hvað ertu að pæla, bara“. Það varð ekki, því margir vinir okkar eru alveg hinumegin og spyrja okkur hvort ekki séu hús til sölu. Við fáum þetta viðmót reglulega. Kannski að hluta til vegna þess hvað við gátum gert með húsnæðismál. Bæði húsið og svo hvað við gátum gert fyrir það. Það hefði aldrei gengið upp í Reykjavík,“ segir Júlíus. „Það er svo annað sem mig langar að koma að í þessu sambandi. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað Árborg styður við listamannalífið á svæðinu. Þá hef ég fengið styrki frá SASS. Það er líka bara áhugi frá hendi sveitarfélagsins. Bæjarstjórinn gerir sér far um að mæta ásamt fleiri aðilum úr stjórnkerfinu. Það skiptir mjög miklu máli að finna að það sé stuðningur og áhugi. Þá finnst manni að maður sé að gera eitthvað rétt og fólk hafa trú á því sem maður er að gera. Það er mikilvægt, segir Myrra Rós að lokum. Við kveðjum Stokkseyri í bili og þökkum fyrir gott spjall. Það er óhætt að hvetja fólk til að kynna sér smáa en skemmtilega listasenuna sem sprettur við hafið niðri á Stokkseyri. Þeir sem vilja skoða vængina betur geta flett Fjaðrafoki upp á Facebook.

Nýjar fréttir