-10.9 C
Selfoss

Set skrifar undir samning við Selfossveitur

Vinsælast

Set ehf. á Selfossi skrifaði undir samning við Selfossveitur nú á dögunum. Fyrir liggur að snjallvæða alla hitaveitumæla hjá Selfossveitum. Það hefur umtalsvert hagræði í för með sér en þá geta mælarnir sjálfir annast álestur og komið gögnum í rauntíma til Selfossveitna. Sigurður Þór Haraldsson, deildarstjóri hjá Selfossveitum sagði í samtali við blaðið að mælarnir hefðu einnig talsverða þýðingu fyrir notendur. Það væri hægt að fylgjast betur með notkuninni og stilla hana af. Háir bakreikningar ættu því að heyra sögunni til. Þá væri auðvelt að sjá með einföldum hætti ef notkunin rýkur upp og þá hægt að bregðast fyrr við ef eitthvað er bilað eða ekki í lagi. Búnaðurinn sem um ræðir er frá fyrirtækinu Diehl í þýskalandi, en það er eins og áður sagði Set ehf á Selfossi sem flytur búnaðinn inn og mun annast verkið. Verkefnið er til næstu fimm ára en það tekur tíma að skipta út mælum í kerfinu. Fyrsta afhending á mælum verður nú í júní að sögn Valdimars Hjaltasonar hjá Set. Aðspurður um þá nýbreytni að Set fari út í svona mæla segir Valdimar að Set hafi lengi verið í innflutningi á sérhæfðari mælitækjum og búnaði fyrir ýmsan iðnað. Þetta sé því viðbót við þá flóru innan fyrirtækisins.

 

Nýjar fréttir