-5.5 C
Selfoss

Forseti Íslands heimsækir nýjan miðbæ á Selfossi

Vinsælast

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson, forseti og Eliza Reid, forsetafrú heimsóttu nýjan miðbæ á Selfossi á þriðjudaginn 2. júní sl. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar tók á móti þeim. Þá tók Leó Árnason hjá Þróunarfélaginu Sigtúni við og kynnti hugmyndirnar, húsin og verkefnið í heild. Eftir kynninguna var gengið um svæðið og sagt frá því sem fyrir augu bar en mikil uppbygging á sér stað á svæðinu og húsin rísa hvert á fætur öðru. Eftir göngutúrinn gaf forseti færi á viðtali og sagði: „Mér líst vel á þennan nýja, gamla miðbæ. Hér er hugsað stórt og það er einmitt það sem við þurfum núna. Þegar þessari uppbyggingu er lokið  þá verður bæjarbragurinn skemmtilegur hér. Gott fyrir heimamenn að geta komið hér saman við störf og afþreyingu. Þá er þetta spennandi áfangastaður fyrir gesti, bæði innlenda og erlenda því að útlendingarnir munu koma hingað aftur. Þessi uppbygging mun verða öllu byggðarlaginu og sunnlendingum öllum til góða. Aðspurður hvernig það væri fyrir sagnfræðing að sjá uppbyggingu á gömlum miðbæ í þeim stíl sem hér er gert sagði Guðni: „Þetta er ímyndaður heimur sem er verið að skapa hér. Það er enginn sem reynir að halda öðru fram og hér er verið að skapa andrúm liðins tíma, reisa ný hús í anda gamalla tíma og fyrirmyndirnar koma héðan og þaðan. Það er einungis ein leið af mörgum til þess að ná þessu mikilvæga samhengi sem við þurfum að hafa í okkar samfélagi milli hins liðna, samtímans og framtíðarinnar. Annarsstaðar er brýnt að vernda gömul hús sem fyrir eru. Hér er hugmyndin önnur, að búa til miðbæ með andblæ liðins tíma. Að lokinni kynningu sátu forsetahjónin hádegisverð í Tryggvaskála ásamt forystusveit Árborgar og öðrum sem láta sig uppbyggingu miðbæjarins varða.

Nýjar fréttir