11.7 C
Selfoss

Spennandi samstarfsverkefni á Suðurlandi fær styrk

Vinsælast

Listasafn Árnesinga í samstarfi við Viktor Pétur Hannesson myndlistarmann og grunnskóla á Suðurlandi hlutu 1.500.000.- kr. styrk fyrir verkefnið Grasagrafík. Grasagrafík er yfirskrift námskeiða sem haldin verða á Suðurlandi. Listamaðurinn mun heimsækja grunnskóla á Suðurlandi en einnig verður boðið upp á smiðjur í Listasafni Árnesinga tengt verkefninu. Viktor Pétur mun aka milli skólanna með vinnustofuna sína, en hún er á hjólum. Viktor hefur þvælst víða um landið á „vinnustofunni“ til þess að stunda listgrein sína og plöntusöfnun til þess að útbúa úr þeim grafíkverk.

Jurtir úr flóru Íslands í aðalhlutverki

Í verkefninu er unnið með jurtir úr flóru Íslands og þær nýttar sem efniviður í listsköpun. Vinnan skilar sér m.a. í því að nemendur og kennarar þeirra sjá jurtir úr náttúru Íslands í nýju ljósi. Í samtali við Viktor Pétur segir hann að einfaldasta leiðin til að útskýra ferlið sé sú að hann „strauji“ jurtirnar á pappír. Þetta sé sambland af grafík og jurtalitun sem eigi sér stað þegar hann geri verk sín. „Það verður mjög spennandi verkefni að fá að heimsækja skólana og fræða þá um þessa skemmtilegu aðferð. Og svo vonandi gaman fyrir börn og kennara að læra aðferðina,“ segir Viktor Pétur í samtali við Dagskrána.

Það verður spennandi að sjá afrakstur vinnunar sem kemur út úr verkefninu á komandi tímum.  Alls voru veittir styrkir til 42 verkefna sem nema alls um 92 milljónum kr. Alls voru 112 umsóknir sem bárust sjóðnum að þessu sinni.

Sjóðurinn styður við þátttöku barna í menningarlífinu

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra fluttu ávarp við úthlutun Barnamenningarsjóðs Íslands fyrir 2020. Þetta var önnur úthlutun sjóðsins sem stofnaður var í tilefni aldarafmælis fullveldisins. Hlutverk sjóðsins er að styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífinu. Forsætisráðherra ræddi sögu íslenskrar barnamenningar og íslensks samfélags og hve mikilvægt væri að gefa öllum börnum tækifæri til að skapa og feta ótroðnar slóðir. Mennta- og menningarmálaráðherra lagði áherslu á aðgengi allra barna að listum, menningu og skapandi starfi og fjölbreytni væri lykillinn að því. Tilkynnt var um úthlutun við athöfn í Hörpu á degi barnsins, sunnudaginn 24. maí 2020 og var safnstjóri Listasafns Árnesinga Kristín Scheving og Viktor Pétur Hannesson viðstödd úthlutun. Lesa má meira um verkefnið á heima síðu safnsins.

 

 

 

Nýjar fréttir