3.9 C
Selfoss

Frítt í sund í Árborg fyrir 17 ára og yngri

Vinsælast

Frítt verður fyrir öll börn í sundlaugar Árborgar í sumar. Bæjarráð sveitarfélagsins Árborgar samþykkti á fundi sínum að bjóða öllum börnum 17 ára og yngri frítt í sundlaugar sveitarfélagsins frá og með 1. júní til 30. september 2020. Áður var það þannig að börn sem áttu lögheimili í sveitarfélaginu fengu frítt í sundlaugina, en aðrir gestir þurftu að greiða fyrir aðgang. Nú komast hinsvegar allir 17 ára og yngri í laugina sér að kostnaðarlausu.

Sundlaugar vinsæll áfangastaður sem dregur að fólk

Í samtali við Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúa í Árborg kemur fram að þetta sé liður í því að draga að gesti til sveitarfélagsins. Það sé svo aftur til þess fallið að styrkja þá þjónustu sem er að auki í sveitarfélaginu svo sem ferðaþjónustu, veitingar og verslun. „Við reynum auðvitað að leggja okkar af mörkum hjá sveitarfélaginu. Sundlaugarnar eru vinsæll áfangastaður og þetta ætti ekki að draga úr þeim vinsældum. Við viljum fá fólk í heimsókn hingað og laugarnar eru einn af þeim þáttum sem dregur fólk að. Það er því borðleggjandi að gera það aðlaðandi að geta komið með stóra fjölskyldu og notið laugarinnar og annars sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða,“ segir Tómas Ellert.

Nýjar fréttir