2.3 C
Selfoss

Bókun vegna dóms Landsréttar í máli Eko-eigna ehf gegn Árborg

Vinsælast

Eftir tæplega 9 ára málarekstur sér loks fyrir endann á einu umdeildasta máli sem komið hefur á borð bæjaryfirvalda á undanförnum árum.

Landsréttur hefur nú endanlega dæmt ólögmæta ákvörðun þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins frá 15. desember 2011 um að hafna báðum tilboðum í verkið Söfnun og flutningur úrgangs, moltugerð og þjónusta við gámastöð 2012-2016, en tvö fyrirtæki buðu í verkið Gámaþjónustan og Íslenska Gámafélagið og átti Gámaþjónustan lægra tilboðið.

Þessi mistök, sem þáverandi minnihluti varaði við á sínum tíma, hafa valdið sveitarfélaginu tjóni upp á marga tugi milljóna króna. Sveitarfélagið er dæmt til þess að greiða, með dráttarvöxtum, 25 milljónir króna í skaðabætur, auk þess sem málskostnaður vegna þessa máls er orðinn um það bil 36 milljónir króna, þar af 7 milljónir króna á þessu ári.

Samtals eru þetta rúmar 60 milljónir króna sem íbúar  sveitarfélagsins þurfa að greiða, vegna dæmalausra og óvandaðra vinnubragða. Sveitarfélagið er dæmt til þess að greiða skaðabætur vegna eins árs af fjórum, sem samningur átti að taka til, og má álykta að sveitarfélagið teljist heppið að þurfa ekki að greiða skaðabætur vegna alls samningstímans. Landsréttur vísar í dómi sínum í fyrningarákvæði hvað varðar seinni hluta samningstímans en málið hefur tekið óheyrilega langan tíma.

Í minnisblaði bæjarlögmanns, sem lagt var fram á fundi  bæjarráðs þegar málið var til umfjöllunar þar á sínum tíma, kemur m.a. fram að hann geti ekki gefið ótvíræð svör um hvort gallar hafi verið á útboðsferlinu. Hvergi er heldur til ótvíræður úrskurður í sambærilegum málum en í úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli nr. 12/2006 segir „ Það er meginregla í opinberum innkaupum að bjóðendur geta ekki breytt grundvallarþáttum í tilboðum sínum eftir að þau hafa verið opnuð, enda eru slíkar breytingar almennt til þess fallnar að raska samkeppni og fela í sér hættu á mismunun“.

Einnig kemur skýrt fram í dómi Landsréttar að einn bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var vanhæfur til að taka umrædda ákvörðun vegna tengsla sinna við annað fyrirtækjanna sem bauð í verkið og átti hærra tilboðið. Þessi umdeilda ákvörðun sem gagnrýnd var mjög harðlega á sínum tíma af þáverandi minnihluta, var í andstöðu við fyrirmæli laga og því ólögmæt.

Ástæða er til þess að þakka Torfa Ragnari Sigurðssyni lögmanni fyrir hans vinnu við að verja hagsmuni sveitarfélagsins í þessu máli og að niðurstaðan varð ekki mun verri en reyndin varð.

Ábyrgð á þessu herfilegu mistökum og tilheyrandi fjárútlátum sveitarfélagsins vegna málsins er alfarið á ábyrgð þáverandi meirihluta D-lista Sjálfstæðisflokksins og þeim sem þá voru og eru enn í dag fulltrúar hans í bæjarstjórn.

Mál nr. 27.2019 í Landsrétti og Mál nr. 26.2019 í Landsrétti

Arna Ír Gunnarsdóttir S lista

Eggert Valur Guðmundsson S lista

Helgi Sigurður Haraldssson B lista

Sigurjón Vídalín Guðmundsson Á lista

Tómas Ellert Tómasson M lista

Sveitarfélagið Árborg dæmt til að greiða Gámaþjónustunni 24 milljónir

 

Nýjar fréttir