4.5 C
Selfoss

Verður mér hafnað í dag?

Vinsælast

Þegar ég var lítil stelpa var ég dugleg að leika við aðra krakka. Mér fannst gaman að vera úti að leika, fara í barbie og þess háttar. En ég átti ég erfitt með eignast sanna vini. Ég veit ekki hver ástæðan var en líklega hefur það eitthvað haft með það að gera að við fjölskyldan vorum “aðkomufólk” í litlum bæ úti á landi þar sem fólkið í bænum var eins og ein stór fjölskylda. Skólagangan gekk samt sem áður vel, en ég vissi aldrei hver yrði vinkona mín þann daginn. Það fór eftir því hvernig “vinkonurnar” vöknuðu, ef svo má að orði komast.  Ég vildi óska þess að mér hefði verið kennt að standa með sjálfri mér þegar ég var ung að árum. En ég var meðvirk. Ég kunni að halda fólkinu í kringum mig góðu. Ég var sérfræðingur í að lesa tilfinningar annarra en áttaði mig ekki á hvaða áhrif það var að hafa á mig sem einstakling að verða fyrir sífelldri höfnun.  Ef að barn gengur í gegnum höfnun á meðal vina sinna og er jafnvel að ganga í gegnum höfnun á sama tíma heima fyrir er mjög líklegt að barnið geri nánast hvað sem er til þess að ganga í augun á vinum sínum með þá von í hjarta að það eignist góða og trausta vini. Það átti svo sannarlega við um mig, því ég þráði samþykki.

Það eru ekki góðir eða traustir vinir ef þeir vilja að þú sért einhver annar eða önnur en þú raunverulega ert. Ég hafði engan til að leiðbeina mér varðandi samskipti á þessum árum. Ég vissi ekki hvað var rétt og hvað var rangt. Það eina sem ég vissi var að ef ég væri sammála síðasta manni þá myndi ég fá að tilheyra. Ég lærði því ung að árum að vera meðvirk.

Það er þannig í lífinu að ef við setjum öðru fólki mörk ber það meiri virðingu fyrir okkur en ef við leyfum því að vaða yfir okkur. Það sama á við um börn. Í dag er ég fjögurra barna móðir og fósturmóðir og ég hef áttað mig á því að ef ég vil að börnin mín læri að standa með sér þá þarf ég að vera fyrirmynd í því líka. Þegar elsta barnið mitt var 2 ára fór ég að takast á við meðvirknina sem ég hafði þróað með mér frá barnæsku. Ég vissi innst inni að ég hafði stærri drauma. Ég hafði hærri rödd og ég vildi láta í mér heyra. Ég vissi að ég þyrfti að láta ljós skína á blekkinguna sem var í höfðinu á mér. Ég vissi að ég þyrfti að vinna markvisst í því að takast á við meðvirknina. Því ef ég ég vildi að börnin mín myndu:

  • Þora, yrði ég að þora
  • Trúa á sjálfan sig, yrði ég að trúa á sjálfan mig
  • Stíga inn í drauma sína, yrði ég að stíga inn í mína
  • Vera hugrökk, yrði ég að læra að vera hugrökk
  • Setja öðru fólki mörk, yrði ég að setja öðru fólki mörk.
  • Elska sig sjálf, yrði ég að elska sjálfa mig

Ég veit að þetta hljómar einfalt í orðum en þetta er stórt og mikilvægt verkefni í raunveruleikanum. Það er svo mikilvægt að við foreldrar tökumst á við sáraukann, meðvirknina, óttan, brotna sjálfstraustið og allt það sem hefur lamað okkur í gegnum tíðina.

Einstaklingur sem tekur ábyrgð á eigin lífi og vinnur að lækningu.

        Læknar ekki bara sig. Hann læknar barnabörnin sín.

 Ég hvet þig til að bera ábyrgð á eigin lífi. Það hefur mögnuð áhrif og mun ekki bara hafa áhrif á þig heldur afkomendur þína. Ef þú vilt aðstoð mína á þessari vegferð þá býð ég upp á viðtöl, námskeið og fyrirlestra.

Allar nánari upplýsingar má finna á www.gunnastella.is

 

Kærleikskveðja,

Gunna Stella

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir