-4.9 C
Selfoss

Tafaleiðir framkvæmda og stjórnun í þágu fjöldans

Vinsælast

Í vetur hafa náttúruöflin svo sannarlega minnt okkur á hvaða kraftar það eru sem raunverulega ráða ríkjum. Veikleikar í raforkukerfinu sem Landsnet hefur í mörg ár bent á voru afhjúpaðir.  Samgöngur stöðvuðust og hefur Öxnadalsheiðin til dæmis verið ófær 12 sinnum í vetur. Þá lágu fjarskipti niðri.

Kerfið sjálft fer ekki að lögum

Uppi er gríðarlegur vandræðagangur við uppbyggingu og viðhald raforku- og vegakerfisins í landinu. Sérlega verndað umhverfi hefur skapast þar sem stöku sveitarfélög, hagsmunasamtök og einstaklingar geta leyft sér að troða á hagsmunum samfélagsheildarinnar, þrátt fyrir málefnaleg rök liggi fyrir um nauðsynlega uppbyggingu grunninnviða okkar. Þetta eru ára- og áratugalangar tafir. Við búum við svo margflókið kerfi leyfisumsókna og kæruferla að ekkert nágrannaríki okkar býr við annan eins reglufrumskóg. Hér verða rakin raunveruleg dæmi sem Landsnet hefur þurft að þreyta í gegnum kerfið mánuðum og árum saman, langt fram úr öllum lögbundnum frestum, áður en hægt er að byrja hina eiginlegu vinnu við framkvæmdina. Þá hafa sveitarstjórnir nýtt sér tafaleiðir laganna þrátt fyrir að hafa áður samþykkt kerfisáætlun Landsnets.

  • Auglýsing á tillögu og ákvörðun um matsáætlun fyrir Hólasandslínu 3 tók fjóran og hálfan mánuð en á að taka fjórar vikur. Yfirferð á frummatsskýrslu sem á að taka tvær vikur tók fjóra mánuði og álit á matsskýrslu sem á að taka fjórar vikur tók 6 mánuði. Samanlagt er þarna um að ræða ferli sem lögum samkvæmt á að taka tíu vikur en tók meira en ár og er þá bara rætt um hluta af nauðsynlegu heildarferli.

 

  • Tímalína vegna undirbúnings fyrir Kröflulínu 3 segir svipaða sögu. Kynning og ákvörðun um matsáætlun sem á að taka fjórar vikur tók næstum 6 mánuði. Úrskurður ÚUA sem á að taka þrjá mánuði tók tuttugu og einn mánuð. Yfirferð frummatsskýrslu fyrir kynningu sem á að taka tvær vikur tók yfir fimm mánuði. Álit á matsskýrslu tók næstum fimm mánuði en átti að taka fjórar vikur. Eftir að því lauk tók heila sautján mánuði að ganga frá skipulagsmálum.

 

  • Nú liggur fyrir matskýrsla fyrir Suðurnesjalínu 2 hjá Skipulagsstofnun og hefur legið þar síðan 13. september 2019. Álitið barst sjö mánuðum síðar. Álit Skipulagsstofnunar var eingöngu byggt á lögum um mat á umhverfismálum en ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins þegar sú stefna byggir á raforkulögum.

Þessi upptalning er birtingamynd kerfis sem ræður ekki við sjálft sig og við verðum að breyta. Ég mun mæta sveitarstjórna- og innanríkisráðherra í fyrirspurnartíma í Alþingi. Þar mun ég spyrja ráðherrann hvort hann og þá ríkisstjórnin sé reiðubúin að einfalda leyfiskerfi framkvæmda á Íslandi, líkt og rakið er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Ég mun spyrja ráðherrann fyrst hvaða innviði hann telji nauðsynlega með tilliti til almannahagsmuna og hvort ráðherrann telji skynsamlegt að skilgreina þá innviði sérstaklega í lögum?

 Kerfið glórulaust

Vegagerðin og Landsnet hafa það lögbundna hlutverk að vinna að þróun og endurbótum á vegakerfinu og flutningskerfi raforku á sem hagkvæmastan hátt, eftir því sem almannahagsmunir og þarfir samfélagsins krefjast. Vegagerðinni ber þannig að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum í áætlunum sínum sem þróist í samræmi við stækkun byggðar, aukin umsvif atvinnulífs og umhverfisleg markmið. Það eru raunveruleg dæmi um að framkvæmdir sem eiga að færa samgöngur heilu landshlutanna inn í nútímann, hafi tafist árum og jafnvel áratugum saman. Ekki má gleyma því að kerfið er mannanna verk sem enginn ræður orðið við og kerfið sjálft hefur ekki lengur það að markmiði að gæta hagsmuna íbúanna – samfélagsins alls. Kerfið er glórulaust á köflum og kæruleiðirnar í engu samræmi við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, eins og sést á meðfylgjandi töflu:

[1]

Einföldum leiðirnar

Í annan stað mun ég leggja þá fyrirspurn fyrir ráðherrann hvaða skilning hann leggur í ákvæði 3. mgr. 28. gr. vegalaga um heimild til að krefja sveitarfélög um kostnaðarmun vegna lagningar þjóðvega og hvort ráðherrann sé reiðubúinn að beita þessu ákvæði?

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er sú að uppbygging innviða getur verið kostnaðar- og áhættusöm. Þá áhættu tekur eigandi innviðanna, í langflestum tilfellum ríkið og því verður að líta svo á að sé nýting lögþvinguð, t.a.m. með eignarnámi sem krefst málefnalegs rökstuðnings á sjónarmiðum almannahagsmuna, er eðlilegt að hæfilegt endurgjald komi fyrir. Þessi ákvæði eru í lögum til að tryggja framgang innviðauppbyggingar með hliðsjón af almannahagsmunum og almannaöryggissjónarmiðum sem réttlæta þetta inngrip í eignarrétt landeiganda og skipulagsvald sveitarfélaga. Ég mun því spyrja ráðherrann í þriðja lagi hvort ekki sé rétt að einfalda umsagnar og leyfiskerfið til samræmis við það sem gert er í nágrannalöndum okkar þannig að málsmeðferðartíminn fram að útgáfu framkvæmdaleyfis verði styttur til muna og að ekki sé hægt að kæra málsmeðferð á fyrri stigum. Þá er mikilvægt að ráðherra svari því hvort hann telji ekki nauðsynlegt að með hliðsjón af uppbyggingu vegakerfisins að ákveðnar framkvæmdir sem varða almannaheill og/eða öryggi landsmanna á vegum, verði undanþegnar mati á umhverfisáhrifum þannig að ábyrgð og ákvörðun um framkvæmdir færist alfarið á hendur ríkisins.

Eins og dæmin sanna með Reykjanesbrautina, þar sem nú er unnið að því að ljúka tvöföldun brautarinnar sem er um 50 km löng að Hafnarfirði. Lokaáfanginn, 5 km kafli frá Hvassahrauni að Krísuvíkurafleggjara hefur verið breytt í samræmi við nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar, innan iðnaðarsvæðis og þarf breytingin að fara í kerfislega þungt, langt og rándýrt umhverfismat þrátt fyrir augljósan kost við breytinguna.

Líkt og ég hef rakið hér að framan, þá er ljóst að kerfið er í engu samræmi við almennan vilja í samfélaginu. Það er því nauðsynlegt að endurskoðun laganna horfi til einföldunar svo að fámennir hópar geti ekki stöðvað eða tafið framkvæmdir sem varða afkomu og lífsgæði íbúa á heilum landsvæðum árum og áratugum saman.

 

Ásmundur Friðriksson,

þingmaður Sjálfstæðisflokksins

[1] Umhverfis og auðlindaráðuneytið. (2019). Samanburður á löggjöf nokkurra nágrannaþjóða um mat á umhverfisáhrifum: Rannsókn gerð til undirbúnings heildarendurskoðunar laga um mat á umhverfisáhrifum. Sótt af https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2019/10/11/Samanburdur-a-loggjof-nokkurra-nagrannathjoda-um-mat-a-umhverfisahrifum/

 

Nýjar fréttir