-9.7 C
Selfoss

65 milljónir í viðspyrnu ferðaþjónustunnar á Suðurlandi

Vinsælast

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti nýlega að sóknaráætlanir landshlutanna fengju 200 m.kr. í viðbótarframlag. Af því fengu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hæsta framlagið, 36 m.kr. Fjárveitingin er liður í fjárfestingarátaki stjórnvalda til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins og styðja við verkefni á landsbyggðinni. SASS gerði samhliða viðamiklar breytingar á verkefnum sóknaráætlunarinnar á þessu ári og þannig að samtals eru lagðar til 65 m.kr. í nýtt áhersluverkefni „Sóknarfæri ferðaþjónustunnar”. Af þessum 65 m.kr. verður 48 m.kr. ráðstafað sem beinum verkefnastyrkjum til ferðaþjónustuaðila.

Alls bárust 211 umsóknir í Sóknarfæri ferðaþjónustunnar

Umsóknarfrestur í sjóðinn Sóknarfæri ferðaþjónustunnar rann út 12. maí sl.  Alls bárust 211 umsóknir. Vegna mikils fjölda umsókna verður unnið að því að móta enn frekari aðgerðir af hálfu SASS sem stutt geta við sem flesta umsækjendur og aðra ferðaþjónustuaðila á Suðurlandi. Fyrirséð er að sjóðurinn getur stutt við 96 verkefni með beinum verkefnastyrkjum. „Þessi mikli fjöldi umsókna er enn ein birtingarmynd þess ástands sem nú ríkir í ferðaþjónustunni. Á sama tíma og framtakssemi og áræðni atvinnugreinarinnar kemur berlega í ljós, í gegnum þann fjölda verkefna sem fyrirtækin vilja hrinda í framkvæmd. Þá vill SASS koma á framfæri þökkum til allra umsækjenda fyrir góðar undirtektir og góð samskipti, “ segir Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS.

Kynningarátak á landshlutanum samhliða verkefnastyrkjum

Samhliða beinum styrkveitingum til ferðaþjónustunnar verður ráðist í markvisst kynningarátak, beint að innlendum ferðamönnum, í landshlutanum. Sá þáttur verður samstarfi Markaðsstofu Suðurlands og ráðgjafa SASS. „Verkefnið í heild felur í sér kynningu á landshlutanum samhliða beinum verkefnastyrkjum ásamt því að áfram verður unnið að fjölbreyttum stuðningsaðgerðum í formi fræðslu- og stuðningsefnis sem ætlað er að styðja við verkefnin sem hafa fengið styrk,“ segir Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri Þróunarsviðs SASS.

Verkefnið hefur verið unnið hratt áfram

Mikið er að gera hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga til þess að sinna þeim aðkallandi verkefnum sem eru í landshlutanum í kjölfar heimsfaraldursins og starfsfólk unnið hratt. „Verkefnið, Sóknarfæri ferðaþjónustunnar, var í heild samþykkt af stjórn SASS 22. apríl sl. Opnað var fyrir umsóknir í nýja sjóðinn viku síðar, 29. apríl. Opið var fyrir umsóknir fram til 12. maí sl. Á þeim stutta tíma skiluðu sér, eins og áður sagði, 211 umsóknir. Yfirferð umsókna stendur nú yfir og stefnt er að því að kynna niðurstöður úthlutunar gagnvart umsækjendum þann 25. maí nk.“, segja Bjarni og Þórður að lokum.

 

Nýjar fréttir