-2.8 C
Selfoss

Heklað handklæði

Vinsælast

Hekluð handklæði eru endingagóð og setja fallegan svip á snyrtinguna. Uppskrift dagsins er hekluð úr vistvænu Alberte bómullargarni sem fæst í Hannyrðabúðinni í fjölda fallegra lita.

Efni: Tveir litir af Alberte bómullargarni, 2 dokkur af hvorum lit (athugið að það verður afgangur af garninu sem vel má nota í að gera þvottastykki í stíl eða borðtuskur). Heklunál no 3.

Skammstafanir: ll-loftlykkja, fl-fastalykkja, kl-keðjulykkja, st-stuðull.

Mynstrið hleypur á 8 lykkjum. Athugið að alltaf eru heklaðar tvær umferðir í sömu átt, fyrst með
lit 1 og svo með lit 2.
Uppskrift: Heklið 81 ll með lit 1.
1.umf:  Heklið 2 ll (fyrsti stuðull) + 2 st í 3ju ll frá nálinni. *Heklið 2 ll hoppið yfir 3 ll, 1 fl í næstu ll, 2 ll hoppið yfir 3 ll, 5 st í næstu ll* endurtakið * *  þar til komið er að lokum umferðar, þá eru heklaðir 3 st í síðustu ll.
2.umf: Hekluð með lit 2. *Heklið 1 fl í 1. stuðul fyrri umferðar, 2 ll, 5 st í fl fyrri umferðar, 2 ll* endurtakið * * út umferðina, endið á 1 fl í síðasta st fyrri umferðar.
3.umf: Nú er stykkinu snúið við og heklað með lit 1. 2 ll (fyrsti stuðull) + 2 st í fl fyrri umferðar. *2 ll, 1 fl í 3ja st fyrri umferðar, 2 ll, 5 st í fl* endurtakið * * og endið umferðina á 3 st.

Endurtakið umferðir 2 og 3 þar til æskilegri lengd er náð, (hér voru heklaðar 79 umferðir).
Heklið nú 1 umf af fl í kringum handklæðið, á skammhlið er heklað í aðra hvora ll og annan hvorn st, 3 fl í hverja hornlykkju og á langhlið eru heklaðar 2 fl í hvern st og 1 fl í fl. Skiptið um lit, *heklið 1 fl, hoppið yfir 1 fl, 5 st í næstu fl* endurtakið allan hringinn. Endið á að hekla hanka í hornið, 22 ll, festið hinum megin við hornið með 1 kl, snúið við og heklð 26 fl um ll-bogann.

Klippið garnið frá, gangið frá endum, þvoið í vél og njótið að þerra hendur á mjúku, fallegu handklæði.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir.

 

Nýjar fréttir