-2.2 C
Selfoss

Múrar brotnir á alþjóðlegum degi safna

Vinsælast

Alþjóðlegur dagur safna verður þann 18. maí nk. Þann dag verður kynning á verkefninu Múrar Brotnir á Listasafni Árnesinga. Verkefnið Múrar brotnir er samstarfsverkefni listakvennanna Hrefnu Lindar Lárusdóttur og Heru Fjord, fangelsisins á Litla Hrauni og Listasafns Árnesinga.

Afsprengi gjöfullar vinnu sem átti sér stað innan veggja fangelsisins

Innan veggja fangelsisins á Litla Hrauni var lagt upp í mikla og góða vinnu að þróa 6 vikna listavinnustofu í samstarfi við fangelsismálastofnun þar sem fangarnir fá að koma sinni rödd og tilfinningum í listrænan farveg. Almenningur fær svo að njóta afraksturs þeirrar vinnu og heyra hvað fangarnir hafa að segja. Í samtali við Kristínu Scheving, safnstjóra LÁ kemur fram að þetta verkefni hljómi vel saman við yfirskrift alþjóðlegs dags safna þetta árið. „Þema dagsins í ár er „Söfn eru jöfn“. Markmiðið er að ýta undir fjölbreytni og þátttöku allra í menningarstofnunum samfélagsins. Okkur fannst þetta tilvalið verkefni til þess að kynna á deginum, en vegna framkvæmda verður kynningunni varpað út á nýrri vefsíðu safnsins og á Facebook síðu safnsins,“ segir Kristín.

Mikilvægt að fangar njóti menningar og lista

Aðspurðar hvernig samstarfið væri með fangelsinu segja Hera og Hrefna: „Samstarfið við fangelsismálastofnun gengur mjög vel. Í febrúar fórum við inn með tveggja klukkustunda vinnustofu á vegum Saga listavinnusetur sem er starfandi á Eyrarbakka og þá sáum við þörfina á verkefni sem þessu.“ Þá segja Hera og Hrefna það skipta máli fyrir fanga að hafa aðgang að list. „Það er löngu kominn tími á ný úrræði og leiðir til betrunar innan fangelsismálastofnunar. Um 50 vistmenn tóku virkan þátt og höfðu mikinn áhuga á að taka þátt í þeirri listsköpun sem boðið var upp á. Áhrif listar til heilunar og betrunar eru margsönnuð auk þess sem list á að vera aðgengileg öllum, grunnskólabörnum jafnt sem vistmönnum fangelsa og öðrum landsmönnum. Það er líka afar mikilvægt fyrir samfélagið að fangar fái úrvinnslu á sínum málum.“ Verkefnið er fjármagnað af Uppbyggingarsjóði Suðurlands og þær stöllur eru að vinna í frekari fjármögnun.  „Eins og er þá erum við að fjármagna verkefnið og höfum fengið styrk frá Uppbyggingarsjóði en þörfnumst frekara fjármagns til að sinna verkefninu af heilindum,“ segja Hera og Hrefna að lokum.

 

Nýjar fréttir