Ég vil byrja á að óska öllu vinnandi fólki til hamingju með hátíðisdag verkalýðsins 1. maí.
Við þessar fordæmalausu aðstæður hefur berlega komið í ljós hve veikt þeir standa sem á einhvern hátt standa utan þess skipulags sem verið hefur um vinnumarkaðinn á Íslandi. Við sáum þetta líka eftir hrunið 2008 en við bárum ekki gæfu til að læra af þeirri reynslu.
Vinnumarkaðurinn á íslandi hefur lengst af verið vel skipulagður og nokkuð skýrar línur milli atvinnrekenda annarsvegar og launafólks hinsvegar. Að auki hafa nokkrir hópar sem ekki heyra beint undir vinnumarkaðinn notið góðs af þessu skipulagi. Örugglega er margt við þetta skipulag að athuga en þó hefur ríkt nokkuð góð sátt um það, allavega hafa ekki komið fram tillögur um að breyta neinu sem nemur.
Á síðustu árum hafa samt ýmsir viljað hreyfa við þessu fyrirkomulagi og þá gjarna í nafni frelsisins til að ákveða sjálfir hvort þeir vilji eða vilji ekki bindast félagi eða samtökum. Samtök atvinnurekenda hafa leynt og ljóst lagt sitt á vogaskálarnar og fyllst mikilli frelsisást fyrir hönd starfsmanna sinna í þessum efnum og ekki talið nauðsynlegt að starfsmenn þeirra tengdust stéttarfélagi, hvað þá að þeim hafi þótt skipta máli hvort starfsmenn tengdust réttum stéttarfélögum. Þrátt fyrir mikla rekistefnu stéttarfélaganna hefur reynst erfitt að fá Samtök atvinnurekenda og einstaka fyrirtæki til að leika eftir þeim leikreglum sem við höfum þó lengst af verið ásátt um. Á þessu hefur meira og meira borið hin allra síðustu ár enda mikið góðæri og mikið að gera í að selja ferðamönnum þjónustu, gistingu og mat og byggja nýjar glæsihallir og hótel og varla tími til að sinna svoleiðis kvabbi og ekki hafa fyrirtæki alltaf haft fyrir því að fylgja almennum mannasiðum og mannúðarsjónarmiðum í kappi sínu. Umræða um launaþjófnað og slæmt atlæti erlends verkafólks er öllum kunn. Stéttafélögin hafa átt fullt í fangi með að heimta leiðréttingar til launafólks sem ekki hefur verið borgað eftir samningum.
Við aðstæður eins og nú ríkja kemur í ljós að eina frelsið sem fólk var að tryggja sér með því að vilja ekki “vera memm” í þessu fyrirkomulagi er að fylla hvergi inn í þau skilyrði til aðstoðar sem þó í boði er. Það er dapurlegt og maður má spyrja sig hver eigi að taka ábyrgð á því. Eins og áður sagði þá kom þetta líka í ljós 2008 þegar kjör verkafólks voru sett niður í algert lágmark. Þá áttu þeir einir málsvara sem greitt höfðu til stéttarfélaganna. Aðrir þurftu sjálfir að berjast fyrir sínu en bera skaðann ella.
Gildi samstöðunnar kemur best í ljós við aðstæður þar sem grunnstoðir samfélagsins bogna eða láta undan. Þá sést best hversu mikilvægt er að eiga sér málsvara, tilheyra samtökum þeirra sem glíma við sama raunveruleika og maður sjálfur. Að standa einn við slíkar aðstæður er ekki gott. Það fáum við að sjá núna. Það virðist vera sem stjórnvöld eigi erfitt með að ákveða hvað skuli gera við þá sem falla utan rammans.
Lærdómurinn sem við, venjulegt launafólk, þurfum að draga af því sem gerst hefur síðustu mánuðina er að samstaða og almenn þáttaka í samtökum launafólks er besta verndin sem við mögulega getum veitt sjálfum okkur og öðrum. Við gætum í einhverjum tilvikum þurft að fórna stundarhagsmunum en flestir ættu að vera búnir að sjá hvað getur gerst ef fólk ákveður að taka ekki þátt eða vera hluti af þeirri samtryggingu sem samtök stéttarfélaga veitir.
Þennan lærdóm ættu einnig stjórnvöld og atvinnurekendur að tileinka sér því ljóst er að eftir að ástandið fer að lagast munu mörg fyrirtæki fá bakreikninga og stjórnvöld munu sitja uppi með að hafa ekki veitt öllum þegnum landsins þá vernd sem þeim ber.
Við skulum hafa það hugfast að það eru alveg eins líkur á að svona ástand skapist aftur. Í það minnsta treysta vísindamenn sér ekki til annars en að reikna með því og hvetja til mikilla aðgerða í framhaldinu til að tryggja að við verðum ekki aftur tekin í bólinu þegar næsti faraldur fer af stað.
Byggjum réttlátt þjóðfélag.
Hjalti Tómasson,
Bárunni stéttarfélagi.