-1.6 C
Selfoss

Hótel og mathöll í byggingu í Hveragerði

Vinsælast

Í Hveragerði er nú í uppbyggingu nýr og spennandi áningarstaður við aðalgötu bæjarins sem ber heitið Gróðurhúsið og er áætluð opnun haustið 2020.  Hafa framkvæmdir á þessum reit vakið nokkra athygli og því er ekki úr vegi að gera grein fyrir þeirri byggingu sem þarna mun rísa og setja mun áberandi svip á aðkomuna inn í bæjarfélagið. 

Götubitamenning í mathöllinni

Samkvæmt upplýsingum frá byggingaraðilum er gert ráð fyrir fjölbreyttri starfsemi í byggingunni sem þjónusta mun Íslendinga jafnt sem erlenda ferðamenn. Mathöll Suðurlands verður staðsett á jarðhæð hússins og verður í anda hinnar skemmtilegu götubitamenningu sem hefur vaxið hratt víða um heim en einnig er stefnt að opnun matarmarkaðar með áherslu á fjölbreytta íslenska framleiðslu. The Greenhouse Hotel opnar á efri hæðum byggingarinnar og býður uppá nýja og nútímalega nálgun fyrir gesti sína. Í byggingunni verður einnig að finna afþreyingu, verslun og ferðaþjónustu með áherslu á nærumhverfið og hið fallega umhverfi Hveragerðisbæjar.

Vinsældir Hveragerðis mun fara vaxandi

Hveragerði er eina bæjarfélagið á Íslandi sem byggst hefur í kringum þá náttúrulegu auðlind sem jarðhitinn er og hefur á undanförnum áratugum áunnið sér orðspor sem bær heilsu, gróðurs og lista.  Þannig hefur Hveragerði orðið vinsæll og einstakur áningarstaður ferðafólks sem sótt hefur í að njóta þessarar sérstöðu.

Það er óhætt að segja að margir hafa fylgst spenntir með framkvæmdum á þessum áberandi stað í bæjarfélaginu og er ekki að efa að þarna muni myndast lifandi og fjölbreyttur áningarstaður fyrir íbúa og aðra gesti Suðurlands en með þessari viðbót við fjölbreytta flóru afþreyingar og veitingastaða verður Hveragerði enn ákjósanlegri staður fyrir sunnudagsrúntinn og eins þegar Suðurland er sótt heim.

Nýjar fréttir