-1.6 C
Selfoss

Útivistartæki fyrir 60 ára og eldri

Vinsælast

Hugmyndin að útivistarsvæði fyrir 60 ára og eldri kviknaði í samnorrænu meistaranámi Guðlaugar Jónu við Háskólann á Íslandi, Háskólann í Lundi og Háskólann í Yvaskular.  Í einu faginu ,,umhverfi og aldraðir” var umfjöllun um ,,playgrounds for the elderly” sem eru víða staðsett í Evrópu og Asíu.  Markmið þessara útivistarsvæða er að bjóða uppá þjálfun og hreyfingu sem taka mið af þörfum og/eða áhuga fullorðinna.  Það eru engin ný sannindi að aldrei er of seint að hreyfa sig enda hafa rannsóknir undir stjórn Janusar Guðlaugssonar sýnt fram á mikilvægi hreyfingar hjá eldra fólki.

Í Árborg var stofnaður vinnuhópur til að þróa útivistarsvæði fyrir 60 ára og eldri.  Oddur Hermannsson, landslagsarkitekt teiknaði. Verkefni vinnuhópsins var að ákveða hvaða tæki ættu að vera til staðar og hvernig fyllsta öryggis yrði gætt varðandi aðgengi.  Í vinnuhópnum voru íþróttafræðingar, sjúkraþjálfari, læknir, hjúkrunarfræðingur, skrúðgarðyrkjufræðingur, umhverfisfræðingur og félagsráðgjafi.   Svæðin sem við horfðum til voru annars vegar við suðurenda þjónustumiðstöðvar eldri borgara að Grænumörk 5 á Selfossi. Í því húsi eru íbúðir fyrir aldraða, félagsstarf aldraðra fer þar fram að mestu leyti og eins er Árblik sem er dagdvöl eldri borgara þar.  Fyrir framan þjónustumiðstöðina eru einnig tvö lítil hús sem tilheyra íbúðum fyrir eldri borgara á vegum Sveitarfélagsins.  Þá hafa verið byggðar blokkir þar sem íbúðir eru ætlaðar fyrir 50 ára og eldri.  Það má því segja að á afmörkuðu svæði er samankomin stór hópur eldri borgara og því eru væntingar um að þjálfunaraðstaðan verði nýtt sem best.  Aðalsvæðið er þó hugsað á sýslumannstúninu sem er stutt frá.  Eins og myndin sýnir þá er hugmyndin að hafa þar púttvöll, boccia völl og æfingatæki.  Sveitarfélagið Árborg skiptist í nokkra byggðarkjarna og var hugmynd vinnuhópsins að setja einnig upp tæki á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Hugmyndin var kynnt fyrir stjórnum félaga eldri borgara á Eyrarbakka og Selfossi sem og nefnd á vegum ÍSÍ íþróttir eldri borgara og tóku allir vel í hugmyndina.  Þessi vinna var unnin fyrir tíu árum en í október 2017 áttu undirritaðar spjall saman líkt og oft áður.  Að þessu sinni barst það að heilsubætandi líkamsræktartækjum sem hægt væri að staðsetja úti.  Þessi tæki eru ætluð fyrir eldra fólk.  Við vorum búnar að frétta af slíkum tækjum á nokkrum stöðum á Stór-höfuborgarsvæðinu.  Okkur fannst þetta spennandi og gæti komið sér vel fyrir okkar fólk hér í Sveitarfélaginu Árborg.  Fórum í vettvangsferð og skoðuðum tækin.  Okkur leist vel á tækin og vorum við ákveðnar í því að gera allt sem í okkar valdi stæði til að framkvæma þessa hugmynd.  Við ákváðum að halda okkur við tækið sem vinnuhópurinn hafði valið fyrir tíu árum.  Við höfðum samband við Jóhann í Vatnsholti sem flytur tækin frá Lappsett inn og fengum tilboð frá honum.  Málið var tekið upp á fundi stjórnar félags eldri borgara á Selfossi (FEB) og var ákveðið að leita eftir styrkjum hjá félögum og fyrirtækjum hér í bæ.  Ásamt FEB á Selfossi gáfu 8 félög/fyrirtæki í söfnunina.  Með styrkjum þeirra tókst okkur að kaupa tækið sem hefur nú verið komið fyrir við suðurenda hússins að Grænumörk 5.  Okkar ósk er sú að þetta tæki muni efla og styrkja eldri borgara sem og aðra íbúa Árborgar sem koma til með að nýta sér æfingartækið.

Tækið er afar vandað og gert til að standa úti allt árið.  Það er góð upphitun fyrir hvað sem fólk tekur sér fyrir hendur í kjölfarið.  Við undirritaðar erum afar stoltar af því að hafa komið þessu æfingatæki upp.  Við höfum trú á að tækið eigi eftir að bæta heilsu og styrkja þá sem koma til með að nýta sér aðstöðuna.  Ekki skemmir heldur að það er staðsett þar sem allir hafa auðveldan aðgang að.  Þarna gefst fólki kostur á að stunda líkamsrækt á þægilegan og skemmtilegan hátt úti í hreinu, heilnæmu og tæru lofti.  Við viljum koma á framfæri kæru þakklæti til þeirra sem studdu okkur.  Vonandi sjáum við sýslumannstúnið verða nýtt sem alhliða útivistarsvæði eins og vinnuhópurinn lagði til.

Sigríður J. Guðmundsdóttir (Sirrý), fyrrverandi formaður félags eldri borgara á Selfossi

Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, fyrrverandi félagsmálastjóri í Árborg

Nýjar fréttir