-5 C
Selfoss

Umhverfisvæn matvælaframleiðsla – Vaxtartækifæri fyrir Suðurland

Vinsælast

Eins klisjukennt og það er, þá er ekki hægt að segja annað en að undanfarnir mánuðir hafi verið einkar sérkennilegir og fordæmalausir. Fólk talar jafnvel um hamfaratíma sem ég get að mörgu tekið undir. Á einu bretti hefur normið fokið út um gluggann og við höfum þurft að skipta algjörlega um gír hvað varðar daglega rútínu.

Áskoranir fela í sér ábyrgð

Þessi heimsfaraldur hefur kennt okkur margt. Ein af þeim lexíum sem við höfum lært er mikilvægi þess að vera sjálfum okkur nóg þegar kemur að matvælaframleiðslu. Við hér á Suðurlandi höfum nægt landrými, umhverfisvænustu orku sem hægt er að fá, óþrjótandi ferskvatnslindir og síðast en ekki síst sérþekkingu á sviði matvælaframleiðslu.

En tækifærin liggja ekki einungis hérlendis. Sérfræðingar telja að á næstu 40 árum þurfi mannkynið að framleiða jafn mikið af mat og það hefur gert síðustu 8000 árin. Þegar staðan er einnig sú að matvælaframleiðsla losar nú þegar um 30% af gróðurhúsalofttegundum heimsins er ljóst að við sem eigum allt þetta land, alla þessa umhverfisvænu orku, allt þetta vatn auk þekkingar og mannauðs, berum ábyrgð. Á þessum forsendum verður að vinna með matvælafyrirtækjum á Suðurlandi að þróun þessara mála. Með nýsköpun og klasasamstarfi að vopni getum við breytt ógnunum í tækifæri.

Tækifærin búa á Suðurlandi

Suðurlandið býr yfir miklum möguleikum til eflingar atvinnulífs og þá ekki síst á forsendum umhverfisvænnar matvælaframleiðslu. Þar sem ég er kjörinn fulltrúi í Sveitarfélaginu Ölfusi þekki ég e.t.v. betur þau tækifæri sem þar búa og er skemmst frá því að segja að mikill uppgangur er á þessu sviði þar. Í undirbúningi eru miklar framkvæmdir sem tengjast framleiðslu á vistvænum matvælum svo sem með fulleldi á laxi, tilkomu ylvera, framleiðslu á smáþörungum, stórskala svínaræktun, eflingu seiðaeldis, útflutningi á vatni o.m.fl. Þau fyrirtæki bætast þar í hóp þeirra sterku fyrirtækja sem þegar starfa á þessu sviði í sveitarfélaginu svo sem útgerðarfélögin Rammi, Skinney-Þinganes, Hafnarnes-Ver, Icelandic glacial, Arnarlax, Laxar, Ísþór, Fisk Seafood o.fl.

Stofnun Þekkingarseturs Ölfuss

Á síðustu tveimur árum hefur Sveitarfélagið Ölfus haft ríkt frumkvæði í stefnumótun á sviði umhverfisvænnar matvælaframleiðslu. Til marks um það hefur grunnur verið lagður að umhverfis- og auðlindastefnu, mörkuð stefna hvað varðar nýtingu jarðhita, svæði skipulögð með tilliti til stórtækrar matvælaframleiðslu, grunnvatnsstraumar kortlagðir og má lengi áfram telja.  Mest kveður sjálfsagt að hugmyndum um stofnun Þekkingarseturs Ölfuss sem mótaðar hafa verið til að laða að fyrirtæki sem sérhæfa sig í umhverfisvænni matvælaframleiðslu. Í ljósi þeirrar ógnar sem steðjar að íslensku samfélagi vegna kólnunar hagkerfisins í kjölfar COVID faraldurs teljum við að skynsamlegt sé að færa sig á annað stig undirbúnings að stórsókn á þessum forsendum.

Með stofnun Þekkingarseturs Ölfuss verður markvisst unnið að aukinni almennri þekkingu sem stuðli að uppbyggingu og fjölbreyttu atvinnulífi á Suðurlandi með sérstakri áherslu á umhverfisvæna matvælastarfsemi á Suðurlandi og nútíma aðferðir við framleiðslu á próteini og öðrum lífrænum afurðum. Horft er til þess að Þekkingarsetur Ölfuss verði sjálfseignarstofnun í eigu fyrirtækja á svæðinu, sveitarfélagsins, ríkisins og annarra aðila sem hag geta haft af starfsemi þess. Rétt er að geta þess að hin ýmsu fyrirtæki hafa sýnt því sterkan áhuga að hafa fjárhagslega aðkomu að stofnun og rekstri Þekkingarsetursins og er nú unnið að lokafrágangi þar að lútandi. Nú þegar hefur verið auglýst eftir verkefnastjóra og hvet ég alla sem uppfylla skilyrði að sækja um. Þó útlitið sé svart núna er framtíðin björt!

 

Grétar Ingi Erlendsson
Formaður Bæjarráðs og bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Ölfusi.

Nýjar fréttir