-6.5 C
Selfoss

Dúkkuverkefnið tekið á annað stig hjá Zelsíuz

Vinsælast

Um þessar mundir er svo nefnt „dúkkuverkefni“ í gangi í Sunnulækjaskóla á Selfossi. Verkefnið er unnið í forvarnarskyni og er með þeim hætti að nemendur í unglingadeild fá í hendurnar dúkku sem þeir eiga að annast yfir eina helgi. Þannig eiga nemendur að kynnast þeirri ábyrgð sem fylgir því að eignast ungabarn. Dúkkan sem nemendur fá í hendur er þannig gerð að enginn getur sinnt henni nema „foreldrið“ sem henni er ánafnað. Það þýðir því lítið að kasta henni frá sér og fá mömmu og pabba til að sinna henni þegar hún lætur illa. Dúkkan grætur, þarf að drekka, láta skipta á sér og vill huggun. Ábyrgðin er mikil að sinna þessari ungu manneskju, en hún gefur einkunn fyrir hve vel er hugsað um hana.

Blásið í rafræna opnun á skrýtnum tímum

Í samtali við Dagbjörtu Harðardóttur, forstöðumann félagsmiðstöðvarinnar kemur fram að félagsmiðstöðinni Zelsíuz á Selfossi hafi verið lokað vegna samkomubanns. „Margar félagsmiðstöðvar hafa brugðið á það ráð, vegna lokana, að hafa rafrænar opnanir og var þetta okkar framlag í því. Starfmennirnir hafa mjög mikinn metnað fyrir starfinu og það komu upp allskyns hugmyndir um hvað við gætum gert til þess að gleðja ungmennin okkar á þessum skrýtnu tímum sem við erum að fara í gegnum,“ segir Dagbjört.

Starfsmenn gerast foreldrar fyrir opnum tjöldum

Það var ákveðið meðal starfsmanna að hver og einn tæki dúkku og hefði hana í sólarhring. Herlegheitunum var svo miðlað á samfélagsmiðlinum Instagram. Þannig gátu ungmennin fylgst með því sem var að gerast, tekið þátt í kosningu um hver myndi hugsanlega vinna þetta og gefið góð ráð. Óhætt er að segja að þetta hafi mælst vel fyrir því fjölmargir tóku þátt í verkefninu með starfsmönnum og gáfu góð ráð. Það er svo auðvitað þannig að dúkkan merkir allt hjá sér hve vel er um hana hugsað.  Eftir sólahringinn voru dúkkurnar svo tengdar í tölvu og niðurstöðurnar litu dagsins ljós. Aðspurð um hvernig hafi gengið segir Dagbjört: „Þau stóðu sig öll mjög vel og hugsuðu vel um sínar dúkkur, en sigurvegarinn var Sveinn Ægir með fullt hús stiga. Það er líka frábært að geta náð til krakkana okkar á meðan á þessari lokun stendur. Þá er gaman að sjá hvað starfsmennirnir okkar leggja sig fram og gera allt sem þeir geta til þess að gera gott úr annars erfiðri stöðu. Auðvitað hlakkar okkur svo öll til að fá ungmenninn okkar í félagsmiðstöðina um leið og það má,“ segir Dagbjört að lokum.

.

 

Nýjar fréttir