Lið Selfoss eSports í Counter Strike: Global Offensive (CS:GO) lék í gærkvöldi sinn fyrsta leik í 4. deild Rafíþróttasamtaka Íslands. Andstæðingur kvöldsins var liðið Klakinn og er fyrirkomulagið þannig að leiknir eru tveir leikir.
Fyrri leikurinn var leikinn í Inferno og endaði með 16-4 sigri, fljúgandi byrjun. Seinni leikurinn var leikinn í Overpass og eftir jafnan leik sigu Selfyss-ingar framúr og lönduðu nokkuð öruggum sigri 16-8. Maður leiksins var valinn Kári „Toppur“ Kjartansson. Liðið situr því í öðru sæti deildarinnar eftir fyrsta leikdag með 4 stig.
Næsti leikur Selfoss eSports í CS:GO deildinni er settur á næsta sunnudagskvöld en eftir er að staðfesta leiktímann. Stefnt er á að senda leikinn út á Twitch-rás Selfoss eSports; Twitch.tv/selfoss_esports. Við kynnum það betur þegar nær dregur og búið er að staðfesta leiktíma.