Þetta eru undarlegir og skrýtnir tímar sem við erum öll að takast á við þessa dagana. Í kirkjunni værum við einmitt núna að undirbúa fyrstu fermingarnar, upplifa og finna með fermingarbörnunum tilhlökkunina verða meiri og meira og við prestarnir hlökkum til að ganga inn kirkjuna með fermingarbörnunum, þau í hvítu kyrtlunum sínum, kirkjan full af fólkinu þeirra, fólkið í sínu besta pússi, gleðitár á hvarmi og við finnum öll hvað þetta er mikil hátíðisstund í þeirra lífi. Við biðjum fyrir þeim, þeim sem eru framtíðin og það er trú, von og kærleikur í loftinu. Þessari tilhlökkun fór síðustu daga hægt og rólega að víkja fyrir óvissunni, kvíðanum og var svo endanlega kippt í burtu með samkomubanni. Við sem eldri erum vitum að þetta er ekki það versta en hafandi sjálf verið unglingar vitum við að þetta er stórmál fyrir þeim einmitt núna. Þessir tímar eru það fyrir okkur öll á einhvern hátt. Tímar þar sem við finnum fyrir kvíða, ótta og óvissu. Bestu ráðin við því eru oft að fara og hitta fólkið okkar, faðma það og eiga innihaldsríkar samverstundir en jafnvel það er ekki lengur það sem okkur er ráðlagt. Frí sem átti að fara í til uppbyggingar verður ekki, atvinnuöryggi ekki lengur svo tryggt og fótunum kippt undan mörgum. Allt þetta verðum við að ávarpa og fá að segja upphátt, segja við hvað erum hræddust, hverju kvíðum við mest, af hverju höfum við áhyggjur. Segjum þetta upphátt, skrifum þetta niður, tölum um það.
Á þessum tíma erum við í kirkjunni líka vön að vera að undirbúa okkur undir eina af stórhátíðum kirkjunnar, páskahátíðina sem er hátíð vonarinnar, upprisunnar. Hátíðinni sem minnir okkur á og segir okkur að vonin sigrar alltaf, ljósið brýtur sér alltaf leið út úr myrkrinu, það er alltaf von, það birtir alltaf upp á ný og aftur kemur vor í dal eins og sagt er. Lífið sigrar og við munum labba með fermingarbörnunum inn kirkjugólfið á þeirra hátíðisdegi. Þó að við upplifum einmitt núna svo margar erfiðar tilfinningar þá munu þær á endanum víkja fyrir betri og glaðværari tilfinningum. Kannski við lítum þá tilbaka og höfum lært að meta eitt og annað í lífinu betur sem við höfum áður tekið sem sjálfsögðum hlutum. Við finnum líka öll fyrir djúpu þakklæti til allra þeirra sem standa vaktina fyrir okkur öll, þau sem daglega birtast á blaðamannfundum eða öðrum viðtölum en líka þau sem sjást ekki, vinna á bakvið tjöldin. Skólana sem gera sitt besta til að raska lífi barnanna sem minnst, þau sem hughreysta og sinna þeim sem ekki má heimsækja.
Við í kirkjunni erum einmitt vön að geta kallað til okkar þau sem vilja á venjulegum sunnudegi í messur, daglegar bænastundir, starf með börnum og unglingum og einmitt þegar hvað mest bjátar á, bjóða í opnar bænastundir. Nú höfum við verið kölluð til að finna nýjar leiðir til þess að miðla trú okkar, von og kærleika. Það eru margar kirkjur að gera með ólíkum hætti og flest af því hægt að finna á netinu. Við í Selfosskirkju munum nota einmitt samfélagsmiðlana, Facebook og Instagram til að koma boðskap vonarinnar á framfæri. Við munum líka fara í það á næstu dögum að hringja í fólk sem við vitum að kemst kannski ekki að heiman eða ekki má heimsækja. Það má líka endilega hringja í okkur, óska eftir samtali.
Besta ráðið í öllu því sem nú dynur yfir okkur og samfélagið í heild – fyrir utan að fylgja tilmælum yfirvalda og gæta að árvekni og skynsemi í umgengni og þrifnaði – er náungakærleikur fyrst og síðast, samstaða, góðvild, hjálpsemi og hlýhugur í garð hvers annars. Og einmitt það hefur orðið svo sýnilegt og áþreifanlegt undanfarna daga og vikur. Megi það verða það sem við tökum með okkur áfram þegar þessi faraldur er genginn yfir. Ekkert er stærra eða meira en kærleikurinn, eins og Páll postuli minnir okkur á. Og þegar allt annað er frátalið er það kærleikurinn sem varir. Leyfum því kærleikanum og góðvildinni, trúnni og voninni að leiða okkur í sameiningu í gegnum þennan óvissutíma.
Sr. Guðbjörg Arnardóttir og Sr. Gunnar Jóhannesson, Selfosskirkju.