1.7 C
Selfoss

Hrós vikunnar: „Allir leggja sitt af mörkum og uppskera eftir því“

Vinsælast

Helga Guðrún Lárusdóttir er hrósari vikunnar.

Ég vil byrja á því að þakka henni Selmu minni kærlega fyrir hlý orð í garð okkar dagforeldra í Árborg. Guð má vita að góð og gleðileg tíðindi eins og þetta hrós ylja meira nú á tímum en nokkurn tímann áður, takk elsku Selma.

Ég vil sjálf hrósa öllu framúrskarandi fólkinu víðsvegar um landið sem eyðir öllu sínu púðri í að halda samfélaginu okkar gangandi á þessum fordæmalausu tímum.

Heilbrigðisstarfsfólkið okkar er algjörlega ómetanlegt og á allt hrós skilið fyrir að standa í fremstu víglínu í baráttunni við þessa ógn sem steðjar að og skelfir unga sem aldna. Þau vinna myrkranna á milli og gera allt hvað þau geta til þess að annast okkur öll, þrátt fyrir stóraukið álag sem liggur eins og mara yfir öllu þessa dagana.

Teymi almannavarna sem færir okkur daglega fréttir af framvindu mála hefur staðið sig með stakri prýði og finn ég helst fyrir trausti þegar ég fylgist með þeim svara spurningum fjölmiðla af stóískri ró og yfirvegun.

Viðbragðsaðilar standa sig sömuleiðis eins og hetjur og eru sannarlega ómissandi á tímum sem þessum.

Samfélagið má með réttu þakka fyrir hin ýmsu störf þeirra, sem hafa alls ekki verið af skornum skammti þetta árið. Hvort sem það eru náttúruhamfarir, veirusýkingar, steypubílar eða óveður sem bjóða þeim birginn þá standa þau sína plikt.

Starfsmenn í verslunum og á veitingastöðum sem gera sitt besta til að koma til móts við mjög svo skyndilega og snarbreytta eftirspurn.

Starfsmenn borgar og sveitarfélaga sem sjá um að allt nái að ganga eins eðlilega og hægt er fyrir fólkið í landinu.

Það krefst mikils af mörgum að skipuleggja takmarkað starf á stórum vinnustöðum en allir leggja sitt af mörkum og uppskera eftir því.

Álagið eykst vitanlega undir þessum kringumstæðum og finnst mér ótrúlega vel að verki staðið að ná að halda skólum opnum að einhverju leyti svo að geðheilsa barna og foreldra haldist að mestu í lagi í þessari steik sem nútíminn er.

Ég er ánægð að sjá hversu mikið af hugmyndum að afþreyingu heimavið fyrir börn og fullorðna kemur úr klárum kollum í gegnum samfélagsmiðla og beint heim til okkar,  það er ekki sjálfgefið að fólk gefi svona af sér.

Síðast en alls ekki síst vil ég hrósa þeim sem snerta mig hvað mest, þeim sem þrátt fyrir allt sem á undan er gengið hugsa um börnin okkar.

Á tímum sem þessum geta þau gefið af sér vitneskju, kærleik, hlýju og alúð sem börnin okkar þurfa svo innilega á að halda í bláköldum veruleika nútímans.

Það að geta látið það dýrmætasta sem maður á í hendurnar á fólki sem kann sitt fag, miðlar þekkingu og reynslu, veitir stuðning, utanumhald og nóg af þolinmæði og gerir sitt allra besta til þess að börnunum líði sem best, hverjar sem aðstæður í lífi þeirra eru, er algjörlega ómetanlegt.

Takk fyrir okkur, þið eruð öll ómissandi og ég er þakklát fyrir að tilheyra þessari litlu, samheldnu þjóð.

Ég vil að endingu skora á hana ömmu mína, Helgu Ragnheiði Einarsdóttur sem átti einmitt afmæli í síðustu viku, að koma með hrós næstu viku.

Nýjar fréttir