-10.6 C
Selfoss

Aukið fjármagn til ferðamannastaða í þjóðskógunum

Vinsælast

Í þriggja ára verkefnaáætlun um uppbyggingu innviða til ferðamannastaða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum renna alls 95,6 milljónir króna til verkefna í þjóðskógum árin 2020-2022. Stærstu verkefnin eru í viðhald gönguleiða á Þórsmörk og Goðalandi, en nýtt þjónustuhús og eldaskáli í Vaglaskógi hlýtur einnig drjúgan styrk.

ögð hefur verið fram ný framkvæmdaáætlun landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum sem gildir til og með árinu 2022. Þar er gerð grein fyrir því fjármagni sem ráðstafað hefur verið til áætlunarinnar og þeim verkefnum sem stefnt er að á þessum tíma.

Alþingi samþykkti árið 2018 þingsályktun um slíka landsáætlun til ársins 2029. Ráðherra umhverfismála setti fram stefnumótandi áherslur um að sinnt skyldi sérstaklega friðlýstum svæðum, hlúð að svæðum sem væru undir miklu álagi vegna ferðamanna, að landvarsla skyldi efld og leiðir útfærðar sem stýrt gætu umferð ferðamanna í þágu verndar náttúru og minja. Jafnframt skyldi stuðlað að aukinni fagmennsku, vandaðri hönnun og unnið að framtíðarsýn ásamt samræmingu og samhæfingu þeirra sem að vernd náttúru og minja starfa.

Framlög til verkefna í þjóðskógunum

Á árinu 2020 er samkvæmt áætluninni til ráðstöfunar rúmur milljarður króna. Alls hljóta verkefni á vegum Skógræktarinnar 95,6 milljónir króna úr verkefnaáætluninni árin 2020-2022. Eru þetta svipaðar upphæðir og fengist hafa á síðustu árum til sambærilegra verkefna.

Til þjónustuhúss og eldaskála í Vaglaskógi er úthlutað 35 milljónum króna árin 2020-2021. Hönnun hússins er að mestu lokið og er stefnt á að hefja framkvæmdir þegar snjóa leysir og má búast við að byggingu hússins verði að miklu leyti lokið haustið 2021. Þetta verður svipuð bygging og reist var eftir verðlaunatillögu í Laugarvatnsskógi og þykir hafa tekist vel. Eins og í Laugarvatnsskógi verður byggingin í Vaglaskógi reist úr íslensku timbri. Hún bætir mjög aðstöðu gesta í skóginum, ekki síst hópa sem þangað koma.

Viðhald og uppbygging gönguleiða í Haukadalsskógi og tenging við Geysissvæðið fær einnig framlag úr áætluninni árið 2022. Sem kunnugt er liggur nú fyrir til umsagnar tillaga til friðunar Geysissvæðisins sem snertir þjóðskóginn í Haukadal lítillega. Betri tenging milli Geysissvæðisins og Haukadalsskógar og betrumbætur á gönguleiðum bætir aðgengi að skóginum og stuðlar jafnframt að vernd svæðisins.

Við Hjálparfoss verður áfram unnið að bættri aðstöðu. Þegar hefur mikið verið unnið undir stjórn Skógræktarinnar að aðgerðum til að draga úr álagi af ferðamannastraumnum en eftir er að gera aðstöðu fyrir ferðafólkið við fossinn viðunandi. Gerð salernisaðstöðu er í lokafrágangi, en einnig verður unnið að viðhaldi gönguleiða og aðstöðu. Verður einni milljón veitt til verkefnisins í ár og næsta ár.

Sömuleiðis verður unnið að uppbyggingu og viðhaldi gönguleiða í þjóðskóginum á Laugarvatni og í skógarreitnum við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri. Til þessara verkefna er úthlutað einni milljón á hvorn stað árin 2020 og 2021.

Stærsta úthlutunin til verkefna í umsjón Skógræktarinnar er svo til ýmissa verkefna á Þórsmörk og Goðalandi. Þar verður áfram unnið að því að bæta merkingar og eins og venjulega verður líka unnið við ýmsar nýframkvæmdir á gönguleiðum, viðhald eldri stígamannvirkja og verkefni sem stuðla að því að vernda landið rofi vegna álags af ferðamönnum. Til þessara verkefna er ár varið 15-17 milljónum króna árlega árin 2020-2022. Texti: PH – skogur.is.

Nýjar fréttir