-6.3 C
Selfoss

Reynt að halda þjónustu Árborgar gangandi

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg mun reyna að halda eins mikilli þjónustu sveitarfélagsins gangandi eins og frekast er kostur á hverjum tíma, þrátt fyrir samkomubann og hugsanleg veikindi eða sóttkví starfsfólks. Hjá sveitarfélaginu er horft til þess að draga úr smithættu meðal almenning og vernda lykilstarfsmenn frá sóttkví eða veikindum.

Hægt verður að nálgast allar upplýsingar hér. Þær verða uppfærðar eins og þurfa þykir.

Yfirlit yfir þjónustu stofnana sveitarfélagsins á meðan samkomubanni stendur

Grunnskólar, leikskólar og frístundastarf

Allt skólastarf leik- og grunnskóla fellur niður mánudaginn 16. mars vegna starfsdags. Að því búnu er gert ráð fyrir að halda áfram eins og kostur er starfi leik- og grunnskóla og frístundastarfi barna og ungmenna á vegum sveitarfélagsins. Starfsdagurinn verður nýttur af stjórnendum og starfsfólki til endurskipulagningar starfsins. Nánari upplýsingar um breytingu á skipulagi skóla- og frístundastarfs verða sendar út mánudaginn 16. mars. Hvert frístundaheimili mun skipuleggja sitt starf í samvinnu við viðkomandi skóla. Opið starf í félagsmiðstöð, ungmennahúsi og frístundaklúbbnum Selnum mun falla niður en hópa- og klúbbastarf mun vera með óbreyttu sniði. Þær stofnanir sem sinna frístundastarfi munu senda út upplýsingar síðdegis mánudaginn 16. mars.

Ráðhús Árborgar er lokað almenningi

Ráðhús Árborgar er lokað, að fráskyldri þjónustu bókasafns, en símaþjónusta þjónustuvers er opin í síma 480 1900. Hægt er að senda tölvupósta á netfangið radhus@arborg.is og einnig eru upplýsingar um netföng starfsfólks á heimasíðu Árborgar.

Austurvegur 67 er lokaður almenningi, þ.m.t. Mannvirkja- og umhverfissvið, skipulags- og byggingardeild, þjónustumiðstöð, tölvudeild og Selfossveitur
Hægt er að hafa samband við starfsmenn símleiðis 480 1500 eða með tölvupósti.

Sorphirða, gámasvæði og vetrarþjónusta

Gert er ráð fyrir óbreyttri sorphirðu og vetrarþjónustu. Opnunartími gámasvæðis helst óbreyttur.

Sundlaugar

Leitast verður við að halda úti eðlilegri starfsemi bæði í Sundhöll Selfoss og Stokkseyrar en talið verður inn í húsnæðið og áhersla lögð á að gestir haldi sig í hæfilegri fjarlægð hver frá öðrum og sinni vel handþvotti.

Íþróttamannvirki

Leitast verður við að halda úti eins eðlilegri starfsemi og hægt er hvað varðar íþróttaæfingar í samráði við íþróttafélög í sveitarfélaginu. ENGAR æfingar verða mánudaginn 16.mars en nánari upplýsingar verða gefnar út síðdegis á mánudag varðandi áframhaldið og eru foreldrar beðnir um að fylgjast vel með tilkynningum frá íþróttafélögunum og sveitarfélaginu.

Bókasöfn

Reynt verður að halda eðlilegri starfsemi á bókasöfnum sveitarfélagsins á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri en lögð er áhersla á að gestir haldi sig í hæfilegri fjarlægð hverjir frá öðrum og gæti hreinlætis á höndum.

Velferðarþjónusta sveitarfélagsins:

Barnavernd og félagsþjónusta

Aukin áhersla er á símaviðtöl. Þeir íbúar sem eru á fjárhagsaðstoð geta sent tölvupóst á netfangið hekla.dogg@arborg.is, eða haft samband í síma í stað þess að mæta í Ráðhúsið v/stimplunar.

Dagdvöl, Árblik og Vinaminni

Opið er í Árbliki og Vinaminni. Þeir notendur sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eru hvattir til að hugleiða vel hvort þeir eigi að taka þátt í starfinu eður ei.

Grænamörk

Nú þegar hefur tíu kaffið verið slegið af þar sem íbúar koma saman. Húsið í Grænumörk er að mestu lokað fyrir utanaðkomandi en að sjálfsögðu opið fyrir íbúa. Þannig er leitast við að takmarka flæði í gegnum húsið. Aðstandendur geta þó enn komið í heimsóknir.

Félagsstarf eldri borgara

Félag eldri borgara hefur hætt með allt félagsstarf í bili.

VISS

Búðin lokar um óákveðinn tíma frá 12. mars til að takmarka heimsóknir. Þeir sem ætla að færa VISS efnivið til að vinna úr eru beðnir um að geyma það þar til í vor.

 

Nýjar fréttir