-8.2 C
Selfoss

Er Menningarsalur Suðurlands að verða að veruleika?

Vinsælast

Menning í sinni víðustu merkingu dafnar fyrst og fremst vegna framlags einstaklinga og félaga sem starfa í hinum ýmsu listgreinum, tónlist, leiklist, sönglist, myndlist, og svo mætti lengi telja. Á landsbyggðinni er það oftast þokkaleg aðstaða sem háir þessu magnaða framlagi einstaklinga og félagasamtaka til að efla samfélögin og gefa þeim lit, íbúum og njótendum öllum til yndisauka. Ég hef frá barnæsku haft mikinn áhuga á menningartengdri starfsemi og því lagt lagt lóð á vogarskálar í mínu heimahéraði að berjast fyrir bættri aðstöðu fyrir menninguna. Á Selfossi var skóflustunga tekin árið 1972 fyrir hóteli, félagsheimili og menningarsal en húsið var vígt árið 1986. Þá var menningarsalurinn og félagsheimilishlutinn skilinn eftir til síðari tíma. Húsið var síðan í heild sinni selt skömmu fyrir aldamót til Kaupfélags Árnesinga sem lagði áherslu á ferðaþjónustu og hóf að stækka hótelið og síðar átti menningarsalurinn að koma inn. Því miður tókst KÁ ekki að klára verkið og síðar var hótelreksturinn seldur til einkaaðila en salurinn sem er enn óinnréttaður með hallandi gólfi fyrir 280 manns í sæti, stórt svið og gryfju rataði aftur til sveitarfélagsins fyrir nokkrum árum. Árið 1999 gerði þáverandi ríkisstjórn myndarlega samninga um uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni meðal annars í Vestmannaeyjum, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki og Ísafirði að ógleymdri Hörpunni sem síðar fékk risaframlag frá ríkinu. Því miður náðum við ekki inn í þennan samning en þingmenn suðurlands á þeim tíma lofuðu að fjármagni yrði varið í menningarhús hjá okkur á fastalandi suðurlands og við bíðum enn. Við skulum ekki gleyma þeirri menningarlegu skyldu ríkisins að færa landsmönnum tækifæri á að njóta verka Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Þjóðleikhússins en við getum því miður ekki tekið á móti þessum sameiginlegu menningarstofnunum okkar vegna aðstöðuleysis. Við erum svo heppin að pólitísk samstaða innan sveitarstjórna á suðurlandi í þessu máli er til staðar sem og innan héraðsnefndar Árnesinga og bæjarstjórnar Árborgar eftir margar ályktanir og áskoranir í þeim efnum.

Margir ráðamenn komið og skoðað salinn

Við höfum á liðnum tíu árum farið með þingmannahópa eftir hverjar kosningarnar af öðrum sem og ráðherra ríkisstjórna liðinna ára í salinn og sýnt þeim möguleikana sem við höfum með því að klára salinn og allir verið sammála um mikilvægi þess. Kórastarf og leiklistarstarf á suðurlandi fullyrði ég að er með ólíkindum kraftmikið og öflugt svo eftir er tekið og því væri það hvalreki fyrir aðstöðusköpun til stærri tónleika og sýninga og jafnvel myndlistar, einnig myndi fullkláraður menningarsalur auka möguleika á að fá stærri viðburði á landsvísu hingað heim í hérað. Hollvinasamtök menningarsalar suðurlands og áhugafólk um menningu eygja nú tækifæri á því að draumarnir verði að veruleika, því ríkið samþykkti að leggja til 5 milljónir og sveitarfélagið Árborg 5 milljónir til að fullklára hönnun hússins. Á haustdögum verður farið í stórátak í uppbyggingu innviða landsins og nú treystum við á að ríkið klári málið og svo klárum við okkar hluta og glæsilegur menningarsalur suðurlands gæti verið klár á tveimur til þremur árum. Tími efnda er runninn upp.

 

Kjartan Björnsson bæjarfulltrúi og áhugamaður um menningu

Nýjar fréttir