3.9 C
Selfoss

Það er draumur að vera með dáta

Vinsælast

Sannkölluð stríðsárastemning verður í safni Einars Elíassonar úti við Selfossflugvöll hjá Kvenfélagi Selfoss á næstu misserum. Ætlunin er að leggja áherslu á jákvæðu hliðar þessa tímabils í sögunni, klæða sig upp í stíl við tímann og njóta samverunnar í afar skemmtilegu og fallegu umhverfi safnsins sem Einar hefur komið upp. Safnið sjálft er stórmerkilegt afrek og gaman fyrir alla að koma þangað. Kvenfélagskonan Rakel Þórðardóttir sagði okkur nánar frá því sem stendur fyrir dyrum.

Frakkinn hans afa varð kveikjan

„Við hjá Kvenfélagi Selfoss verðum með viðburð til að minnast hersetunnar, bæði í Kaldaðarnesi og hér á Selfossi. Okkur langar að minnast þessa tíma í sögu bæjarins og samfélagsins. Vera hersins setti mikinn svip á mannlífið hér og þjóðfélagið í heild. Víða er enn verið að nota skýli og bragga sem byggð voru á stríðsárunum sem dæmi. Byrjunin var sú að ég var að taka til í bílskúrnum hjá mömmu og pabba sem voru að flytja og finn í poka ullarfrakka af afa mínum sem fæddist í Vorsabæ. Þetta var jakki sem augljóslega var keyptur á stríðsárunum, en hann var í námi í Skandinavíu. Mér var bent á að Einar myndi kannski vilja fá frakkann á safnið sitt og þegar ég kom þangað inn varð ég agndofa. Ég er aðflutt og hef aldrei séð þetta og vissi ekkert af þessu og fannst þetta rosalega flott hjá honum. Eftir það kviknaði hugmyndin að fá að nýta salinn og gera eitthvað í salnum,“ segir Rakel.

Tilvalið að klæða sig upp á í þessum stíl

„Hugmyndin fór svo á flug í haust þegar ég fór að spyrja hvort ekki væri gaman að setja upp viðburð hjá Einari og fólk myndi dressa sig upp í anda fatastílsins sem var á þessu tímabili. Þá yrði dagskrá sem væri tengd tímabilinu og fólk gæti skoðað safnið í leiðinni. Upp úr þessu fékk ég nokkrar góðar konur með mér í að skipuleggja viðburðinn. Og eftir áramót fórum við á fullt í verkefnið.

Spennandi fróðleikur og dillandi tónlist

Þegar við spyrjum Rakel út í dagskrána segir hún hana vera að mótast en þó séu komin nokkur spennandi atriði á dagskrá. „Hjördís Geirs ætlar að taka nokkur dillandi lög, tískusýning frá Leikfélagi Selfoss á búningum þeirra í sýningunni Djöflaeyjunni og þá mun Sigurjón Erlingsson segja frá endurminningum sínum tengda hersetuliðinu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Rakel.

Plísseruð pils og rauður varalitur

Eins og áður sagði er ætlunin að allir komi klæddir í takt við tímabilið. Rauður varalitur og plísseruð pils fyrir dömurnar. Pokabuxur, jakkaföt og hattar fyrir herra. „Við munum bjóða upp á kjötsúpu og kaffi og sætabrauð á eftir. Allur ágóði mun renna til landsöfnunar Kvenfélagssambands Íslands sem er gjöf til allra kvenna á Íslandi. Viðburðurinn verður svo auglýstur nánar síðar. Fólk getur farið að öngla saman í búninga og kíkja í fataskápinn.“

Mynd:

(Braggadans)

 

 

Nýjar fréttir