-7.2 C
Selfoss

Börn hjálpa börnum – söfnun fyrir skólastarfi

Vinsælast

Fimmti bekkur í Sunnulækjarskóla tók á móti Laufeyju Birgisdóttur, framkvæmdastjóra ABC barnahjálpar í síðustu viku. Krakkarnir munu taka þátt í söfnun á vegum ABC barnahjálpar sem haldin er í 23. sinn. Í ár mun söfnunarfénu verða ráðstafað til að styrkja innviði skólastafs ABC í Afríku og Asíu. Sérstaklega verður hugað að bættri aðstöðu í skólunum í Bangladesh og Pakistan. Þá verður fé veitt í áframhaldandi uppbyggingu á skólanum í Búrkína Fasó.

Mikil uppbygging á sér stað fyrir söfnunarféð

Laufey kynnti fyrir börnunum í hvað söfnunarféð fer og hvernig lífið gengur í þeim löndum sem stutt er við með fjárframlagi sem safnast. Börnin spurðu hvað krakkarnir læra, hvað þau borða og hvernig í þau eyða deginum sínum. Mörg hver þurfa jafnvel að vinna fyrir sér og sínum og það kom börnunum á óvart að það væri ekki sjálfsagt að þau gætu sótt skóla. Þá sýndi Laufey krökkunum hvað peningar sem safnast á Íslandi geta haft mikil áhrif til góðs í þeim samfélögum sem um ræðir.

Mikilvægt að hjálpa öðrum

Það var Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar sem setti söfnunina formlega af stað. Verkefnið fer þannig fram að börnin fá söfnunarbauka merkta ABC barnahjálp. Kennarar aðstoða þau við að skipta á milli sín skólahverfum. Þau fara svo tvö saman eða fleiri og banka á hús og kynna starfið og óska eftir því að fólk styðji við verkefnið. Í samtali við blaðamann sagði eitt barnið það mikilvægt að hjálpa öðrum. Það væri leiðinlegt að við á Íslandi hefðum það gott meðan aðrir hefðu minna. Þá taldi nemandinn að vel yrði tekið á móti þeim af íbúum á Selfossi. „Það eru örugglega allir til í að hjálpa þeim að vera í skóla svo þau geti lært“.

Nýjar fréttir