-5.4 C
Selfoss

Djöflaeyjan á fjalirnar hjá Leikfélagi Selfoss

Vinsælast

Það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur hjá Leikfélagi Selfoss. Þegar komið er inn fyrir dyr á litla leikhúsinu við ána tekur á móti manni Thulekampur í öllu sínu veldi. Skáldsögur Einars Kárasonar, Þar sem Djöflaeyjan rís og Gulleyjan eru fyrirmyndir að sýningunni. Leikgerðin er alveg ný en hún var göldruð fram af hæfileikaríkum hópi leikfélagsins undir tryggri stjórn leikstjórans Rúnars Guðbrandssonar. Frumsýning er fimmtudaginn 6. mars nk. og rétt að tryggja sér miða á þessa mögnuðu sýningu.

Þarna er braggafjölskyldan öll saman komin

Söguna þekkja margir enda hefur hún verið kennd í skólum í mörg ár, sýnd í leikhúsum og í bíó. Á sýningunni hittum við auðvitað kvenpersónuna Karólínu sem gín og drottnar yfir fjölskyldunni og leggur spáspilin á borðið blótandi með sígarettuna í munnvikinu. Tomma karlinn sem fátt aumt má sjá, forsmáður og afskiptur, nema ef vera skyldi að hann Baddi minn þyrfti peninga til að leysa út ameríska kaggann. Baddi, aðaltöffari Íslands og uppáhald ömmu sinnar lætur sig auðvitað ekki vanta. Það er von á stórskemmtilegri sýningu, en blaðamaður náði broti af því besta á æfingu hjá Leikfélaginu. Búningar, leikmynd, smínk og persónusköpun er kraftmikil og til fyrirmyndar.

Samhentur og öflugur leikhópur

Í samtali við Rúnar Guðbrandsson, leikstjóra sýningarinnar, kemur fram að hann sé hæst ánægður með útkomuna og hópurinn að baki sýningunni sé einkar öflugur. „Það eru í kringum 50 manns sem koma að þessu með einum eða öðrum hætti. Hér er tónlistarfólk og leikarar og allt í allt 24 leikarar sem stíga á svið þegar hæst lætur.“ Hann segist hafa hitt hópinn fyrir jól og tekið smá snúning með þeim, sent þau heim með verkefni yfir jólin, lesa bækur, horfa á myndina og fræða sig um efnið. Þegar þau komu svo til baka eftir jólafrí skapaðist sýningin í leikhúsinu í samvinnu hópsins. Leikgerðin er því ný og spennandi.

Karólína og Baddi

Það er ekki laust við það að manni standi dálítill stuggur af Karólínu þegar hún kemur í öllu sínu veldi að spjalla við blaðamann. Baddi fylgir slakur á eftir, leðurjakkaklæddur með brillíjantín í hárinu. Það eru þau Íris L. Blandon og Hafþór Agnar Unnarsson sem leika þau. Þau hrista af sér hlutverkið og blaðamaður spyr þau hvernig það sé að takast á við hlutverk svo stórra og mikilla persóna. Þau segja það ákaflega gaman og krefjandi. Það sé gaman að kynnast þeim og fá að máta sig við þau og skapa. „Baddi var svolítinn tíma að koma til mín en nú er hann kominn,“ segir Hafþór Arnar. Aðspurð um aldursbreiddina og fólkið í sýningunni segir Íris: „Það er þannig að hér eru allir jafnir hvort sem þeir eru gamlir eða ungir. Það er svo gaman hjá okkur að þegar maður kemur hingað þreyttur úr vinnunni fer maður fullur af orku heim.“ Þau segjast spennt fyrir frumsýningunni og hvetja alla til þess að kíkja á braggafjölskylduna og hvernig lífinu vindur fram í Thulekampinum.

Nýjar fréttir