-4.1 C
Selfoss

Krefjandi og gefandi að stjórna í stóru sveitarfélagi

Vinsælast

Þátttaka í stjórnun fjölbreytts sveitarfélags er í senn krefjandi og gefandi.  Vandséð er að hægt sé að sinna slíku nema gefa sér ríkan tíma til samskipta við íbúa og hagsmunaaðila.  Í þeim tilgangi sótti ég heim fjölmarga íbúa og fyrirtæki í dreifbýli Ölfus nú fyrir skömmu.

Íbúar heilt yfir ánægðir

Í þessum samskiptum kom vel í ljós að íbúar í dreifbýlinu eru heilt yfir ánægðri með sitt sveitarfélag og stoltir af því að tilheyra því stóra og sterka sveitarfélagi sem Ölfusið er.  Óskir þeirra og vonir eru að flestu samhljóma því sem á sér stað í þéttbýlinu.  Þeir kalla eftir sterkum rekstri með áherslu á grunnþjónustu.

Áherslur í dreifbýli

Eins og gefur að skilja skilur þá sumt að, milli íbúa í dreif- og þéttbýli.  Eitt af því er áhersla í dreifbýlinu á þjónustu við börn og skólaakstur, málefni vatnsveitu og úrbætur í öryggismálum tengdum samgöngum. Þessum ábendingum tökum við sem skipum framvarðasveit sveitarfélagsins alvarlega.

Þjónusta við börn í dreifbýli

Sveitarfélagið Ölfus hefur farið þá leið að vinna náið með Hveragerðisbæ þegar lýtur að uppbyggingu þjónustu við börn í suðurhluta dreifbýlisins.  Samstarf þessara nágranna sveitarfélaga hefur í alla staði verið farsælt.  Þannig greiðir Sveitarfélagið Ölfus ekki eingöngu kostnað sinna íbúa, heldur tekur fullan þátt í mótun þjónustunnar, byggir upp fasteignir, tryggir gæðaúttektir o.fl. rétt eins og hvað íbúa í þéttbýlinu varðar  Með því hefur verið hægt að tryggja börnum í dreifbýli og fjölskyldum þeirra fyrirmyndarúrræði í næsta nágrenni við heimili þeirra.  Í upphafi þessa kjörtímabils var svo skólaakstur tekinn til gagngerrar endurskoðunar og fjármagni bætt í þann málaflokk til að hægt væri að auka þjónustuna.  Ljóst er að áfram þarf að vera á tánum hvað þessa þjónustu varðar og taka reglulega til endurskoðunar enda breytast forsendur á milli ára.

Málefni vatnsveitu

Í sveitarfélaginu eru reknar fjölmargar vatnsveitur sem flestar eru í einkaeigu.  Víða er landið ríkt af góðu og aðgengilegu vatni en annarstaðar er kallað eftir aðkomu Sveitarfélagsins.  Vatnsveitan Berglind þjónustar stærsta hluta dreifbýlisins og nokkuð ljóst má vera að mikilvægi hennar mun vaxa þegar fram líða stundir. Það er ánægjulegt að segja frá því að samráð við íbúa í dreifbýlinu hefur nú skilað því að þessa dagana er unnið að því að koma á annan tug heimila inn á Vatnsveituna Berglindi.  Þá er jafnvel enn mikilvægari sú ákvörðun bæjarráðs sem tekin var í seinustu viku um að kaupa það land sem nýtt er til vatnstöku fyrir Vatnsveituna Berglindi og tryggja þannig til framtíðar hagsmuni íbúa hvað þetta varðar. Um er að ræða 4,5 ha, landspildu úr við Ingólfsfjall í Ölfusi.  Vilji okkar er að halda áfram þessari uppbyggingu og bæta stöðugt aðgengi að vatnsveitunni á komandi árum.

Öryggismál tengd samgöngum

Á seinustu árum hafa stór skref verið stigin hvað samgöngur í dreifbýli varðar, sérstaklega í suðurhluta sveitarfélagsins, við hringveg 1.  Lengra þarf þó að ganga og til að mynda þarf að tryggja að reiðstígar, heimreiðar o.fl. falli að öðrum úrbótum.  Þorlákshafnarvegurinn frá Hlíðarendaafleggjara og að Hveragerði er illa farinn, Hvammshringurinn þarfnast úrbóta, vegurinn niður að Arnarbæli er löngu út sér genginn og áfram má telja.  Ekki má heldur gleyma þörfinni fyrir gatnalýsingu í dreifbýli og víða er brýnt að ráðast í endurbætur og nýframkvæmdir til að tryggja öryggi vegfarenda. Með það í huga höfum við óskað eftir því við Vegagerðina að tafarlaust verði ráðist í úttekt þar að lútandi og í framkvæmdir í framhaldi af því.  Til að sýna gott fordæmi höfum við ákveðið að hefja sjálf undirbúning að úrbótum á gatnalýsingu við heimreiðar.  Vonir standa til að hægt verði að ráðast í framkvæmdir þar að lútandi á komandi ár.

Höldum áfram

Sveitarfélagið Ölfus er sannarlega víðáttumikið og fjölbreytt.  Með sameiginlegu átaki og vilja til skilnings á fjölbreytilegum þörfum íbúa og fyrirtækja getum við best tryggt velferð allra.  Með þann útgangspunkt að leiðarljósi höfum við stigið fram á fyrstu misserum þessa kjörtímabils.  Vilji okkar er að halda áfram á þeirri vegferð.

 

Grétar Ingi Erlendsson

Formaður Bæjarráðs

Sveitarfélaginu Ölfusi.

Nýjar fréttir