3.9 C
Selfoss

Kofaveiki

Vinsælast

Skilgreining:  Þegar einstaklingur hefur dvalið heima hjá sér í lengri tíma vegna sinna eigin veikinda eða annarra fjölskyldumeðlima.

Þegar einstaklingur hefur dvalið heima hjá sér í lengri tíma vegna veðurs

Undanfarið hef ég komist minna út en ég hefði viljað. Ég hef verið heima að hugsa um veikt barn. Sofið illa og gengið á hálfum tanki. Ég held að flestir foreldrar þekki þessa tilfinningu. Við tökum því jafnan sem sjálfsögðum hlut þegar allir geta mætt á sinn stað og við getum sinnt okkar vinnu og hlutverkum. Þegar svo eitthvað ber út af og við dettum úr rútínu, sofum ver þá finnum við smám saman hvernig orkan verður minni og það er eins og líkaminn kalli á súrefni.

Þannig var vikan mín. Sonur minn er búin að vera veikur, með einhverskonar flensu. Hann er búin að standa sig ótrúlega vel og hefur verið mjög þolinmóður. Hann er búin að fá að spila meira af tölvuleikjum en vanalega og horfa mun meira á sjónvarpið. Á svona dögum er maður þakklátur fyrir tæknina og að það sé endalaus afþreying í boði fyrir þreytt og veik börn. Svo kom loksins sá dagur að hann fór hann að hressast. Þá fór ég að finna fyrir einkennum kofaveikinnar. Ég fór að finna að líkami minn kallaði á súrefni. Heilinn þráði sólarljós. Félagsveran í mér þráði félagsskap fullorðinna einstaklinga og líkaminn þráði hvíld.

Hvað er hægt að gera þegar svona er? Fyrsta hugsun margra er líklega sú að fá sér auka kaffibolla og súkkulaðibita. Trúið mér, ég hef gert það. Ég þráði líka að leggja mig en ég vissi að þegar ég myndi vakna yrði ég jafn þreytt og áður. Hvað var þá til ráða? Jú, ég reddaði mér pössun í eina klst. á meðan maðurinn minn var í vinnu og fór út að ganga. Ég held ég geti aldrei lýst því almennilega í orðum hvað einn langur og góður göngutúr gerir fyrir mig bæði andlega og líkamlega. Ég hreinlega elska göngutúra og þeir gera það alltaf að verkum að mér líður betur bæði andlega og líkamlega þegar ég kem heim.

Góð ráð til að losna við Kofaveiki

  1. Fara út úr húsi og anda að sér súrefni t.d með því að stunda einhverskonar hreyfingu.
  2. Fara í heimsókn til vinar/vinkonu
  3. Sinna áhugamálum sínum utan heimilis.

 

Gangi þér sem allra best,

Gunna Stella

Nýjar fréttir