-1.1 C
Selfoss

Álagningarhlutfall fasteigna í Ölfusi hefur lækkað tvö ár í röð

Vinsælast

Í Ölfusi hefur álagning gjalda verið að lækka seinustu ár.  Þannig hefur álagningarhlutfallið lækkað úr 0,36% fyrir árið 2018 niður í 0,34% árið 2020.  Á sama tíma hefur holræsagjald verið lækkað úr 0,25% niður í 0,20 og vatnsskattur úr 0,12 niður í 0,10%. Fasteignagjöld samanstanda af samtölu fasteignaskatts, lóðarleigu, sorphirðugjalds og gjalds vegna endurvinnslustöðva.  Fasteignaskattur vegur þar mest.

Að margra mati eru fasteignagjöld ekki sanngjarn skattur.  Þau eru lögð á fasteignir á forsendum fasteignamats sem byggt er á áætluðu söluverðmæti eignarinnar miðað við þær eignir sem selst hafa á viðkomandi svæði.  Þar með situr fólk uppi með að borga hærri gjöld af eign sinni ef nágrannarnir selja vel.  Notkunargildið er hins vegar óbreytt og eigendur hafa eingöngu þann möguleika að borga hærri gjöld.

Vega upp hækkað mat með lægri álagningu

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að þessar hækkanir séu til marks um vilja bæjarfulltrúa til að halda gjöldum svo lágum sem mögulegt er.  „Þótt vissulega sé það afar jákvætt hvað fasteignir hér í Ölfusi, og þá sérstaklega í Þorlákshöfn, hafa verið að hækka í verði þá á sá veruleiki sér einnig þá hlið að upphæðin sem fólk þarf að greiða af eignum sínum hækkar samhliða.  Þegar skattur er lagður á verðmæti þá hækkar náttúrulega krónutalan þegar verðmætin aukast.  Við horfum til þess að reyna að vega upp á móti því með því að lækka álagningarhlutfallið.“

Gjöldin mikið lægri „betramegin“ við Hellisheiðina

Aðspurður um samanburð við nágrannasveitarfélögin segir Elliði að vissulega sé einnig horft til þess.  „Heilt yfir þolum við vel allan samanburð við nágrannasveitarfélögin.  Hvað höfuðborgarsvæðið varðar munar náttúrulega gríðarmiklu hvað fólk hér „betramegin“ við Hellisheiðina er að greiða sanngjarnari gjöld af eignum sínum.  Ef við lítum okkur svo enn nær og berum saman upphæðir á bak við sambærileg hús í Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi þá kemur í ljós að gjöld hér eru lægri.“

Umtalsvert lægri gjöld í Þorlákshöfn en í Hveragerði og Selfossi

Þegar borin eru saman fasteignagjöld í Þorlákshöfn, Hveragerði og á Selfossi kemur í ljós að kostnaður fasteignaeigenda í Þorlákshöfn eru umtalsvert lægri.  Ef til að mynda er litið til sambærilegra eigna svo sem parhús, og borin saman parhús við Klængsbúð, Þorlákshöfn (byggt 2006/150 m2), Klængsbúð, Þorlákshöfn (byggt 2013/197 m2), Dalsbrún, Hveragerði (byggt 2007/154 m2), Hraunbæ, Hveragerði (byggt 2007/169 m2) og Kjarrhólar, Selfossi (byggt 2014/166 m2) kemur í ljós að eignirnar í Þorlákshöfn bera langtum lægri gjöld:

Samanburður verður ef til vill enn nærtækari þegar horft er til svokallaðra „Eyjahús“ sem öll voru byggð á sama tíma í Þorlákshöfn, Grindavík, Hveragerði og Selfossi.  Sé horft til slíkra húsa kemur einnig í ljós að fasteignaeigendur í Þorlákshöfn og Grindavík borga umtalsvert lægri gjöld en fasteignaeigendur á Selfossi og í Hveragerði.

Sé horft til þessa samanburðar kemur í ljós að eigandi parhúss í Þorlákshöfn greiðir 181.235 krónum minna í fasteignaskatt en eigandi sambærilegs parhúss á Selfossi.  Á sama hátt greiðir eigandi Eyjahraunshúss í Þorlákshöfn 135.280 krónum lægra af sinni eign en eigandi sambærilegs húss á Selfossi og 104.985 krónum minna en eigandi í Hveragerði. Fréttin birtist fyrst á hafnarfrettir.is

 

Nýjar fréttir