-5.4 C
Selfoss

Hönnun og framkvæmdir í ráðhúsi Árborgar

Vinsælast

Í framhaldi af greinaskrifum bæjarfulltrúa D-listans í Dagskrána, 12. febrúar síðastliðinn, er nauðsynlegt að bregðast við og taka af öll tvímæli um að undirritaður, sem bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, tók ákvörðun um val á arkitektum til að hanna breytingar á ráðhúsi Árborgar. Sú ákvörðun var tekin á grunni þekkingar undirritaðs á störfum arkitektanna og að lokinni kynningu fyrir stjórnendum, m.a. á sviðsstjórafundi sem haldinn var þann 17. janúar 2019. Undirrituðum þykir því miður ef skilja mátti svar hans, í bæjarráði þann 6. febrúar sl., á þann veg að ábyrgð á ákvörðun væri vísað á sviðsstjóra.

Mikilvægt var að hönnunarlausnir yrðu snjallar, þannig að rúma mætti aukna starfsemi án þess að ráðast í kaup á öðru húsnæði með tilheyrandi breytingum, eða byggingu á nýju, sem hefði hreinlega verið of tímafrekt og kostnaðarsamt. Undirritaður hafði frá fyrri tíð frábæra reynslu af störfum og ráðsnilli Björns Hallssonar sem arkitekts og hafði einnig starfað með Ólöfu Valdimarsdóttur á meðan hún var byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar. Í ljósi þeirrar reynslu óskaði bæjarstjóri eftir að fá kynningu frá BÓ arkitektum á sviðsstjórafund í janúar 2019 til að kanna grundvöll fyrir samstarfi. Í framhaldi sviðsstjórafundar óskaði bæjarstjóri eftir kostnaðaráætlun BÓ arkitekta vegna endurhönnunar ráðhússins í heild sinni og lagði þá áætlun og umræður á sviðsstjórafundi til grundvallar ákvörðun um að hefja samstarf.

Það er ekki alltaf hægt að bíða

Breytingar í ráðhúsinu voru orðnar mjög aðkallandi á síðasta ári. Kjartan Björnsson bæjarfulltrúi D-lista benti m.a. á það í fyrirspurn sinni, þann 25. september 2019, að breytingar á ráðhúsi hefðu verið til umræðu í nokkur ár – en ekkert verið gert!

Það var einfaldlega ekki lengur tími til þess að gera ekki neitt. Umræddar breytingar, sem hófust í lok síðasta sumars, voru m.a. gerðar á grunni samþykktrar fjárhagsáætlunar 2019 og tillagna sem kynntar voru í bæjarstjórn í mars á síðasta ári. Því til viðbótar var áríðandi að gera ráðstafanir þannig að nauðsynleg þjónusta rúmist áfram í ráðhúsinu þrátt fyrir ört vaxandi þjónustuþörf í stækkandi sveitarfélagi. Breytingarnar munu auk þess færa húsið og starfsemina til nútímalegra horfs, en það var löngu orðið nauðsynlegt.

Í grein sjálfstæðismanna er spurt hvort þenja þurfi út stjórnsýsluna. Það hljómar auðvitað eins og fólkið í ráðhúsinu muni hafa lítið fyrir stafni – sem er firra. Reikna má með að þetta sé sett fram í pólitísku skyni því að bæjarfulltrúarnir hljóta að gera sér grein fyrir þeim verkefnum sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir. Á síðustu árum hefur aðkeypt þjónusta frá verkfræðistofum og ýmsum sérfræðingum valdið yfirþyrmandi miklum kostnaði fyrir sveitarfélagið. Það er vandi sem nú er verið að ná tökum á og hefur þegar náðst mikill árangur. Kannski greinarhöfundar vilji halda í þá gömlu kostnaðarsömu vegferð að kaupa sem mest frá einkafyrirtækjum – með tilheyrandi missi á þekkingu og yfirsýn – og þá má alveg spyrja í þágu hverra það sé.

Uppfærslan á ráðhúsinu er því hvorki óþarfi né sýndarmennska, heldur er um að ræða hagsmuni sveitarfélagsins og framkvæmdirnar nauðsynlegar til að styrkja starfsemina þannig að skila megi verkefnum sveitarfélagsins með sóma. Þá þarf tæpast að ræða hve mikilvægt er að geta boðið starfsfólki upp á gott starfsumhverfi.

Undirbúningur og áætlanir

Hafið er yfir allan vafa að framkvæmdir í ráðhúsinu eru nauðsynlegar og að um er að ræða þarft verk í þágu sveitarfélagsins. Jafnframt er engin ástæða til ætla annað en að vel hafi verið farið með fjármuni og að kostnaður verksins standist samanburð við önnur sambærileg verk og kostnaðarstaðla. Hinsvegar skal ekki draga dul á að mistök áttu sér stað í framgangi málsins. Sérstaklega er það leitt að viðauki við fjárhagsáætlun skyldi ekki samþykktur fyrr en í október, því að núverandi bæjaryfirvöld hafa lagt áherslu á að gera viðauka tímanlega – nokkuð sem allur gangur var á hér áður.

Mistök sem orðið hafa eiga sér ýmsar skýringar en í megindráttum var rót vandans miklar mannabreytingar sem áttu sér stað á sama tíma og verið var að vinna að undirbúningi framkvæmdanna. Þær leiddu til þess að stjórnun verkefna dreifðist á fleiri hendur en æskilegt hefði verið. Reyndar hefur stjórnun verkefna sveitarfélagsins legið í svo miklum mæli hjá verkfræðistofum og einkafyrirtækjum úti í bæ á undanförnum árum að yfirsýn innan sveitarfélagsins hefur versnað, álag aukist og kostnaður vaxið. Trúlega hefur þetta gerst vegna of mikils aðhalds í mannaráðningum.

Það var augljóst forgangsverkefni síðastliðið sumar að stofna og byggja upp nýja framkvæmda- og tæknideild á mannvirkja- og umhverfissviði, en hlutverk deildarinnar er m.a. að hafa yfirsýn og stjórn á öllum framkvæmda- og viðhaldsverkefnum Árborgar, undirbúa kostnaðar- og fjárhagsáætlanir og tryggja góð kjör til sveitarfélagsins. Deildin tók til starfa um miðjan ágúst 2019 að loknum ráðningum sviðsstjóra sviðsins, deildarstjóra, og verkefnastjóra og hefur nú þegar náð mjög góðum árangri í stjórnun og kostnaðaraðhaldi.

Afsökunarbeiðni

Á grunni kostnaðaráætlunar sem lá fyrir í september samþykkti bæjarstjórn, í október 2019, auknar framkvæmdir í ráðhúsinu upp á um 35 milljónir, með viðauka við fjárhagsáætlun. Einnig samþykkti bæjarstjórn 40 m.kr. framlag í til framkvæmdanna í fjárhagsáætlun ársins 2020.

Samkvæmt upphaflegu kostnaðarmati var gert ráð fyrir að hönnunarkostnaður gæti orðið um 18,5 m.kr. vegna allra hæða hússins. Þegar viðauki vegna framkvæmdanna var lagður fyrir bæjarstjórn í október misfórst alfarið að taka tillit til hönnunarkostnaðar arkitekta sem var þá þegar orðinn talsverður. Þetta leiddi til þess að samþykktur viðauki og fjárhagsáætlun 2020 vegna framkvæmda í ráðhúsi er um 20 m.kr. lægri en annars hefði átt að vera. Enginn nema undirritaður getur tekið ábyrgð á þessum mistökum og biðst því afsökunar á þeim.

Hönnun er að mestu lokið og var fundur framkvæmda- og tæknideildar með arkitektum haldinn í vikunni. Á grunni þess fundar verður ljóst hvaða hönnun er enn eftir og farið yfir hugsanleg frávik í kostnaði. Það er trú undirritaðs að kostnaður vegna hönnunar verði eins og eðlilegt má teljast miðað við umfang og eðli verksins og nærri því sem upphaflega var áætlað.

Gísli H. Halldórsson,
bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar

Nýjar fréttir