Á fundi bæjarstjórnar Árborgar 19. febrúar munu bæjarfulltrúar D-lista leggja fram tillögu um að fenginn verði óháður úttektaraðili til að fara yfir embættisfærslur í tengslum við breytingar á Ráðhúsi Árborgar.
Óskað verður eftir því að metið verði hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga, þar á meðal ákvæðum um fjárstjórnarvald, valdmörk bæjarráðs og bæjarstjóra og ákvæðum um bindandi áhrif ákvörðunar um fjárhagsáætlun. Á mannamáli merkir þetta að kannað verði hvort bæjarstjóri, eða hver sá sem tók ákvarðanir í málinu, hafi farið eftir þeim heimildum sem viðkomandi hafði til að skuldbinda sveitarfélagið, hvort ákvörðun um að ráðast í umrætt verkefni hafi verið tekin í samræmi við lög og hvort fjármunum sveitarfélagsins (almannafé) hafi verið ráðstafað með lögmætum hætti.
Óskað verður eftir að kannað verði hvort farið hafi verið eftir samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Árborgar, sem felur í sér nánari útfærslu á ýmsum ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Meðal annars verði farið yfir það í hvaða tilvikum aðrir en bæjarráð eða bæjarstjórn hafa heimild til að taka svokallaða fullnaðarákvörðun varðandi fjármál sveitarfélagsins og hvort farið hafi verið eftir þeim reglum.
Hvað er það sem bendir til þess að ekki hafi verið farið að þessum lögum? Jú, af óundirrituðm gögnum sem lögð voru fram á síðasta bæjarráðsfundi, og ætla má að stafi frá bæjarstjóra, má ráða að ekki var aflað samþykkis neinnar nefndar innan sveitarfélagsins, bæjarráðs eða bæjarstjórnar, til að ráðast í verkefnið. Því síður var aflað fjárheimildar við upphaf verks.
Óskað verður eftir að metið verði hvort farið hafi verið að ákvæðum laga um opinber innkaup og innkaupareglum sveitarfélagsins. Lögin og reglurnar geyma m.a. ákvæði um það í hvaða tilvikum skylt er að bjóða út kaup á vörum og þjónustu.
Hvað er það sem bendir til þess að ekki hafi verið farið að þessum reglum? Jú, í áður tilvitnuðum gögnum er gerð grein fyrir hluta þess kostnaðar sem er áfallinn og áætlaður. Fjárhæðirnar sem um ræðir nema að lágmarki 100 milljónum króna og má ætla að kaup á arkitektaþjónustu og vinnu verktaka hafi verið útboðsskyld.
Óskað verður eftir að skoðað verði hvort bæjarráð hafi uppfyllt lögbundnar skyldur sínar. Bæjarráð fer með mikilvægt hlutverk hvað varðar framkvæmdastjórn og fjármálastjórn sveitarfélagsins og ber því að hafa eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess.
Hvað er það sem bendir til þess að bæjarráð hafi vanrækt skyldur sínar? Bæjarfulltrúar D-lista hafa í tvígang lagt fram fyrirspurnir um breytingar á húsakosti Ráðhúss og bókasafns. Svörin við fyrri fyrirspurninni má í besta falli flokka sem útúrsnúninga. Svörin við síðari fyrirspurninni innihalda hálfsannleik og afhjúpa það sem virðast vera alvarleg brot gegn lögum og reglum. Fulltrúar meirihlutans bera ábyrgð á því að svör sem þeir leggja fram í bæjarráði séu efnislega rétt og að ekkert sé dregið undan. Það er grafalvarlegt að halda upplýsingum með þessum hætti frá bæjarfulltrúum D-lista og reyna þannig að koma í veg fyrir að þeir sinni eftirlitsskyldu sinni.
Bæjarfulltrúar D-lista