8.4 C
Selfoss

Djúp óveðurslægð – Lögregla hvetur til undirbúnings

Vinsælast

Veðurofsinn sem væntanlegur er í nótt og á morgun er síst í rénun. Í samtali við Lögregluna á Suðurlandi kom fram að menn þar á bæ óskuðu eftir því að fólk undirbyggi sem best komu veðursins. Það mætti gera með því að tryggja lausamuni, binda sorptunnur og það sem hefðbundið þykir þegar von er á vondu veðri. Þá kom fram að fólk ætti ekki að vera á ferli að nauðsynjalausu.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsir yfir óvissustigi

Ríkislögreglustjóri lýsir yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands, sem spáir aftakaveðri með appelsínugulum veðurviðvörunum um allt land.

Veðurofsinn líklegur til að hafa mikil áhrif

Spáin gerir ráð fyrir austan roki eða ofsaveðri, 25-33 m/s. Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 50 m/s, einkum undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall og á heiðum. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdarsvæðum. Einnig má búast við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og sýna varkárni. Hér fyrir neðan eru upplýsingar frá Bliku:

Suðausturland:  Byrjar að hríða frá Mýrdal og austur í Berufjörð snemma í nótt. NA-átt 20-25 m/s í fyrramálið og blindbylur.  Hviður 40-55 m/s í Öræfum (Sandfell) frá um kl. 03 til 10.  Lagast og hlánar á milli kl. 10 og 12.

Eyjafjöll og undirlendi Suðurlands: Verður orðið bálhvasst undir Eyjafjöllum upp úr miðnætti og vindur vex mjög um miðja nótt.  Og að þessu sinni ekki síður í í Fljótshlíð og nærri Hvolsvelli.  Vindur 30-33 m/s í Rangárvallasýslu mest allri snemma í fyrramálið og hættulegt að vera á ferðinni.  Grjótflug líklegt, en líka snjókoma eða slydda. Gengur niður um hádegi. 25-30 m/s vestar á Suðurlandi þegar verst verður.

Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði:  Um 20 m/s nærri miðnætti og með skaffjúki, þó lítill snjór sé fyrir.  Hvessir mjög eftir kl. 3 og með ofankomu um kl. 6.  26-30 m/s frá kl. 5 til 12, en lægir þá og hlánar jafnframt lítillega. Þessi vindur og bylurinn nær niður undir efstu byggðir ofan Reykjavíkur við Hólm og Rauðavatn.

Frekari upplýsingar má nálgast á veður vefnum blika.is 

Skólar hafa sent frá sér tilkynningar

Skólastarf í Árborg verður líklega skert eða fellur alveg niður. Búið er að fella niður skólaakstur og ekki víst að það verði hægt að fullmanna skólana. Veðrið mun þó batna verulega upp úr hádegi og leikskóla og frístundastarf ætti því að geta orðið með eðlilegum hætti seinni part dags. Nágrannasveitarfélögin Flóahreppur og Bláskógabyggð hafa einnig tilkynnt að þar verði allar stofnanir á vegum sveitarfélaganna lokaðar.

Landsnet segir líkur á rafmagnstruflunum

Í óveðrinu af völdum djúprar lægðar og spáð er á föstudag, er hætt við margháttuðum truflunum á flutningskerfi raforku vegna aftaka vinds af austri og sums staðar kemur ísing einnig við sögu. Stendur frá því snemma morguns sunnan- og suðvestanlands og hvað verst í um 6 klst. Hámarkið norðan og austantil verður um miðjan daginn og stendur til kvölds.

Við fylgjumst með frekari upplýsingum eins og þær berast

 

Nýjar fréttir