-4.5 C
Selfoss

Söngvakeppnin breytti lífi mínu

Vinsælast

Margir söngelskir Íslendingar beina athygli sinni að skjánum þessa daga þar sem Evróvisíon er í fullum gangi. Næstkomandi laugardag verður seinna undanúrslitakvöldið haldið og eigum við Sunnlendingar verðuga fulltrúa þar, en þá stígur á sviði hljómsveitin Gagnamagnið í annað skipti á Evróvisíon-ferli sínum, eins og margir muna eftir þá var hljómsveitin nálægt því að tryggja sér rétt til þátttöku í lokakeppninni árið 2017.

Sunnlendingurinn Daði Freyr Pétursson er forsprakki hljómsveitarinnar, en hann samdi lagið og textann, sem flutt verður á laugardaginn. Í hljómsveitinni ásamt honum eru rafhljóðfæraleikararnir og dansararnir Árný Fjóla Ásmundsdóttir, Jóhann Sigurður Jóhannsson og Stefán Hannesson og söngkonurnar Sigrún Birna Pétursdóttir og Hulda Kristín Kolbrúnardóttir. Öll tengjast þau Daða á mismunandi hátt, Árný er konan hans, en hann kynnist henni í FSu þar sem hann kynntist Stefáni og Huldu líka. Síðan er Sigrún litla systir hans og Jóhann var með honum í 10. bekk í Laugalandsskóla.

Aldrei eytt jafn löngum tíma í að semja lag

„Lagið er í rauninni samið eftir að grunnhugmyndin að atriðinu var komin. Ég samdi lagið í stúdíóinu mínu í Berlín þar sem ég bý ásamt Árnýju og 9 mánaða dóttur okkar Áróru. Ég man ekki eftir að hafa eytt jafn löngum tíma í að semja lag eins og þetta. Ég gerði allskonar mismunandi útgáfur, prófaði allskonar laglínur og var alltaf að breyta, ég setti mikla pressu á sjálfan mig með þetta lag sem varð til þess að mér fannst aldrei neitt nógu gott, en ég er mjög sáttur með útkomuna og mér finnst þetta vera besta lag sem ég hef gefið frá mér, allavega pottþétt skemmtilegasta,“ segir Daði um lagið sitt.

Textinn er upprunalega saminn á ensku og segir Daði að hann fjalli um tilfinninguna við það að eiga nýfætt barn og geta ekki talað við það, að vita í rauninni ekki beint hvað þessari nýju manneskju finnst eða muni finnast um þig eða hvað henni muni finnast um hluti yfir höfuð. Íslenska textann gerði hann vegna þess að í reglum söngvakeppninnar þarf maður að syngja á íslensku í undankeppninni, en hann vonast auðvitað til að komast áfram svo hann geti flutt lagið eins og það var samið.

„Íslenski textinn fjallar um að Gagnamagnið sé að koma úr framtíðinni að bjarga heiminum með nýja dansinum sínum. Enski textinn er mjög persónulegur og mér fannst eitthvað skrýtið við að þýða hann bara beint yfir á íslensku, svo við ákváðum að vera með annan texta sem ég held að ýti samt undir atriðið í heild,“ segir Daði.

Miklu meiri alvara heldur en síðast

Þegar Daði er spurður hvort hann sjái mikinn mun á því að keppa í Söngvakeppninni núna í ár miðað við fyrir 3 árum segir hann: „Núna er ég töluvert þekktari en síðast og það er ákveðinn standard sem fólk kannski býst við. Við erum að koma aftur fram sem Gagnamagnið, fólk býst við einhverju ákveðnu svo við þurfum að vinna allt öðruvísi að atriðinu til að reyna að koma aftur á óvart. Ég er að fara í þessa keppni af miklu meiri alvöru en síðast. Núna langar mig í alvöru að fara út fyrir Íslands hönd. Síðast var þetta prótótýpan, núna er Gagnamagnið fullmótað.“

Daði fer fögrum orðum um reynslu sína í að taka þátt í Söngvakeppninni en þátttaka hans hafði mjög góð áhrif á hann sem tónlistarmann. „Ég hef fengið að vinna sem tónlistarmaður síðan við stigum á svið 2017 og það eru forréttindi sem ég tek ekki sem gefnu. Ég hef fengið að spila tónlistina mína fyrir ótrúlega margt fólk og draumurinn er bara að fá að halda áfram að gera það svo lengi sem ég lifi.“

Í lokin segir Daði það ómögulegt að spá hvernig þetta fer allt hjá þeim, en eitt veit hann fyrir víst, að hann og hljómsveitin eru stolt af því sem þau ætla að bjóða þjóðinni upp á á laugardaginn kemur.

Nýjar fréttir