-8 C
Selfoss

Um makaskipti á landi í Svf Árborg

Vinsælast

Bæjarfulltrúar D-lista lögðu talsvert á sig við að gera tortryggilegan hagstæðan samning um makaskipti á landi sem samþykktur var á síðasta fundi bæjarstjórnar Svf  Árborgar, þann 15 janúar sl. Á fundinum voru samþykkt skipti á 13,2 hektara landspildu við Eyrarbakka, í eigu sveitarfélagsins, fyrir 19,9 hektara landspildu úr landi Stekka, en sú spilda er í 3 km fjarlægð frá Selfossi. Þetta hljóta að teljast mjög hagstæð skipti fyrir sveitarfélagið. Hagsmunir seljandans eru að hann fær í staðinn land nærri sínu eigin býli og á því betra með að hagnýta það. Góð viðskipti eru jafnan þannig að báðir aðilar hafa hag af.

Í umræðum um málið gerðu bæjarfulltrúar D lista tilraun til að fegra makaskipti á landi Gamla Hrauns sem meirihluti D-lista gerði á síðasta kjörtímabili, um leið og þeir lýstu núverandi viðskiptum sem vinargreiða. Þeir lögðu því fram eftirfarandi bókun við afgreiðslu málsins.

„Makaskipti á landi Gamla Hrauns sem meirihluti D lista gerði á síðasta kjörtímabili var vegna þess að sveitarfélaginu skorti land undir dælustöð og lét í skiptum óbyggilegt land, því voru þetta miklir hagsmunir sveitarfélagsins. Hagsmunir sveitarfélagsins í þessum makaskiptum sem nú er verið að samþykkja er ekki í þágu þess“

Rétt skal vera rétt

Í umræðum vegna málsins á fyrrnefndum fundi bæjarstjórnar létu bæjarfulltrúar D-lista m.a. þau orð falla að það land sem sveitarfélagið hefði látið í skiptum við Gamla Hraun 2 hefði verið gamlir ruslahaugar og ekki nothæft byggingarland auk þess sem sveitarfélaginu hefði vantað land undir nýja dælustöð sem stóð til þess að reisa og því nauðsynlegt að fara í umrædd makaskipti.

Þessar fullyrðingar standast hins vegar enga skoðun. Í fyrsta lagi er hið rétta að aðeins örlítill hluti landsins nær inn í gamla skeljasandsnámu sem nýtt var undir gróðurúrgang og landfyllingarefni austan við gömlu ruslahaugana á Eyrarbakka. Aðrir hlutar landsins eru ræktuð tún og þurrt gróið land enda stendur landið hátt og á sandi og telst vera 7,38 ha. Aðalatriði málsins er að sveitarfélagið afhenti eitt besta byggingarland sem finnst við sjávarsíðuna í sveitarfélaginu í skiptum fyrir 0,88 ha. af óræktuðu landi undir dælustöð og 10,4 ha mýri upp með Eyrarbakkavegi. Umrætt land verður seint flokkað undir gott byggingarland eða hentugt til ræktunar ólíkt landinu sem var látið í skiptum. Erfitt er því að sjá hvernig þessi gjörningur fyrrum meirihluta D-lista hafi verið í þágu hagsmuna sveitarfélagsins.

Í öðru lagi þegar skoðuð er fullyrðingin um nauðsyn þess að fara í umrædd makaskipti á landi við Gamla Hraun 2 vegna knýjandi þarfar á því að fá land undir nýja dælustöð er í besta falli vafasöm. Ekki er fráleitt að álykta að meirihluti D-lista hafi þurft að fara og leggjast á hnén gagnvart eigendum jarðarinnar Gamla Hrauns 2, til þess að snúa ofan af eigin klúðri. Ef skoðað er hvernig staðið var að því að byggja umrædda dælustöð vakna grunsemdir um að ekki hafi verið vandað nægjanlega vel til verka. Í því ferli sem fór af stað kemur eftirfarandi í ljós ef skoðaðar eru afgreiðslur Framkvæmda- og veitustjórnar á kjörtímabilinu 2014-2018.

Þann 20.1. 2016 kemur málið fyrst til afgreiðslu og voru málefni hita og vatnsveitu til umræðu og eftirfarandi var bókað. „Þörf er orðið á nýrri dælustöð fyrir Stokkseyri og Eyrarbakka. Framkvæmda og veitustjóra falið að undirbúa málið“ Næsta sem gerist í þessu máli var ákvörðun sem tekin var 3 mánuðum seinna, á fundi þann 13.04.2016 og eftirfarandi bókun samþykkt. „Kostnaðaráætlun fyrir nýja dælustöð lögð fram. Unnið er að gerð deiliskipulags og stefnt að auglýsingu í maí. Unnið verður áfram að undirbúningi framkvæmda“ Og áfram var unnið að málinu og á fundi þann 18.05 2016 mánuði síðar var bókað. „Farið yfir stöðu verkefnisins. Hönnun dælustöðvar er nánast lokið og deiliskipulag verður tekið fyrir á næsta fundi skipulags og byggingarnefndar“ Deiliskipulagið var svo auglýst í framhaldinu og engar athugasemdir komu fram.

Staðreyndir málsins

Það sem vekur sérstaka athygli þegar lesið er yfir forsendur skipulagslýsingarinnar vegna framkvæmdarinnar kemur skýrt fram að Svf Árborg sé eigandi landsins sem um ræðir. Það er að sjálfsögðu rangt og vekur því upp þá áleitnu spurningu hvort fyrrum meirihluti D-lista hafi talið sveitarfélagið eiga umrætt land og hafið framkvæmdir í óleyfi í byrjun árs 2017, en ekki var gengið frá makaskiptum við eigendur Gamla Hrauns 2 fyrr en á síðasta fundi bæjarráðs þann 24. maí 2018. Meira en ári eftir að framkvæmdir hófust við nýja dælustöð. Það vekur því einnig upp þá spurningu hvort það hafi virkilega verið svo að með því að hefja framkvæmdir í óleyfi hafi sveitarfélagið sett sig í svo slæma samingsstöðu gagnvart eigendum Gamla Hrauns 2 að Svf Árborg hafi fundið sig knúin til að fara í jafn óhagstæð makaskipti á landi eins og raun ber vitni og rakið er hér að ofan.

Það vekur því furðu að í bókun í fulltrúa D lista, sem lögð var fram á síðasta bæjarstjórnarfundi, sé því haldið fram að sveitarfélaginu hafi skort land undir dælustöð og af þeirri ástæðu hefðu umrædd makaskipti á landi verið gerð. Eins og framkvæmdarferlið sýnir svo ekki verður um villst  að meirihluti D lista taldi sig eiga umrætt land þar sem dælustöðin var staðsett. Það á að vera ófrávíkjanleg krafa að kjörnir fulltrúar fari með rétt mál er varða málefni sveitarfélagsins. Í þessu máli virðist minnihluti D lista leggja sig mjög fram um  að gera ákvarðanir núverandi meirihluta bæjarstjórnar eins  tortrygglegar og hugsast getur. Undirritaðir víkja sér ekki undan málefnalegri gagnrýni á störf meirihluta bæjarstjórnar, en sú gagnrýni verður að vera lögð fram á málefnalegan og heiðarlegan hátt og að fullyrðingar kjörinna fulltrúa standist skoðun.

Eggert Valur Guðmundsson formaður bæjarráðs

Sigurjón Vídalín Guðmundsson formaður skipulags og byggingarnefndar

 

Nýjar fréttir