4.5 C
Selfoss

Sameinuð fyrir samfélagið

Vinsælast

Árið 1946 varð Hveragerðishreppur til við uppskiptingu Ölfushrepps í tvö sveitarfélög. Síðan hafa tvö sveitarfélög verið í Ölfusi sem nú bera stjórnsýsluheitin Sveitarfélagið Ölfuss og Hveragerðisbær. Í Sveitarfélaginu Ölfusi bjuggu 1. janúar 2020 2.276 íbúar og í Hveragerðisbæ 2.699 íbúar samkvæmt þjóðskrá. Þar af eru íbúar með erlent ríkisfang 19% af íbúum Ölfuss og 6% í Hveragerði.

Sameiningarhugmyndir

Hugmyndir um sameiningu sveitarfélaganna tveggja hafa komið reglulega til umræðu síðustu áratugi enda eru sveitarfélögin tvö nátengd landfræðilega og reka mörg verkefni í sameiningu. Árið 2014 fór fram íbúakosning í Hveragerði um áhuga íbúa á sameiningu og töldu 63% íbúa að Hveragerði ætti að sameinast og af þeim töldu 70% að sameinast ætti Sveitarfélaginu Ölfusi. Í kjölfarið könnuðu Ölfusingar vilja íbúa sveitarfélagsins til sameiningar. Niðurstaða íbúakosninga var að 304 vildu kanna með sameiningu, og flestir við Hveragerðisbæ, en 308 vildu það ekki. Því munaði aðeins fjórum atkvæðum og ljóst að nokkur vilji var til að kanna með sameiningu þó að meirihluti sveitarstjórnar á þeim tíma hafi ákveðið að gera það ekki. Þann 14. nóvember sl. óskaði Hveragerðisbær eftir sameiningarviðræðum við Sveitarfélagið Ölfuss. Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi hafnaði viðræðum en minnihluti O-listans var fylgjandi því að kanna málið nánar og loka ekki neinum dyrum. En hvaða tækifæri eru í sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga?

Meiri slagkraftur

Tækifæri til samlegðar fyrir samfélagið er óvíða betri en með sameiningu stjórnsýslu Hveragerðis og Ölfuss. Nú þegar er mikill samrekstur, Ölfusingar eiga í grunn- og leikskólum Hvergerðinga sem börnin í dreifbýli Ölfuss sækja auk þess sem sveitarfélögin tvö eiga í samstarfi við önnur í Árnessýslu um mörg verkefni. Mikil íbúafjölgun er í báðum sveitarfélögunum og tækifæri til atvinnusköpunar mikil. Sveitarfélag með um 5.000 íbúa hefur mikið vægi í að bæta þjónustu við samfélagið og út á við í samskiptum við ríkisvaldið, slagkraftur í stærra sameinuðu sveitarfélagi er einfaldlega meiri en í tveimur meðalstórum sveitarfélögum. Slíkur slagkraftur er nauðsynlegur sveitarfélagi sem hefur það markmið að þróast í nútímasamfélagi og auka þjónustu við íbúa sína. Í samskiptum við ríkisvaldið hefur stærra sveitarfélag jafnframt meira vægi en lítið, s.s. við að þrýsta á um samgöngubætur, fjölgun hjúkrunarrýma, standa vörð um Garðyrkjuskólann á Reykjum og um fjölgun ríkisstarfa í héraði, svo eitthvað sé nefnt.

Tækifærin eru fleiri ef við vinnum saman

Tækifærin til atvinnusköpunar eru mikil í Ölfusi og má þar einkum horfa til þriggja mikilvægra þátta sem má segja að marki sérstöðu svæðisins, þ.e. höfnin í Þorlákshöfn, ferðamennska í Hveragerði og nágrenni og jarðhitinn og nýting hans. Hingað til hafa sveitarfélögin tvö þróað þessi tækifæri án mikils samstarfs þó að augljóst sé að það eru sameiginlegir hagsmunir allra íbúa á svæðinu að vel takist til hvernig að þeim er staðið.

Fiski- og vöruhöfnin í Þorlákshöfn hefur óþrjótandi möguleika sé hafnaraðstaðan stækkuð en uppland hafnarinnar er gríðar stórt. Í raun hefur höfnin þegar fest sig í sessi sem öflug vöruhöfn auk fiskihafnar sem hún hefur verið um áratugi. Í uppbyggingu hafnarinnar hefur skipt miklu að Sunnlendingar hafa stutt Ölfusinga í samræðum við ríkisvaldið um fjármagn í höfnina. Enda eru það hagsmunir allra Sunnlendinga að hafnaraðstæður í Þorlákshöfn verði bættar, því styttri vöruflutningar styrkja atvinnusköpun og fyrirtæki á svæðinu. Þá er ljóst að þegar fyrstu farþegaskipin munu leggjast að höfn mun það hafa mikla innspýtingu inn í Ölfusið allt og í uppsveitir Árnessýslu með auknum ferðamannastraumi.

 

Ferðaþjónustan í Ölfusi er vannýtt auðlind en þar eru mörg tækifæri sem má nýta betur og þróa ný. Nálægðin við höfuðborgarsvæðið og millilandaflugvöllinn hjálpar mikið til. Aðeins er rúmlega hálftíma ferðalag frá höfuðborginni austur fyrir fjall. Þannig er Ölfus og Hveragerði hliðið inn á Suðurland og á að vera fyrsti viðkomustaður ferðamanna á leið austur. Hveragerði hefur alla tíð verið vinsæll ferðamannastaður og nú síðustu ár hefur Reykjadalur, fyrir ofan bæinn, dregið til sín vel á þriðja hundrað þúsund ferðamanna til sín á hverju ári. Í Hveragerði og dreifbýli Ölfuss hefur verið mikil uppbygging á hótelum og afþreyingu fyrir ferðamenn, s.s. hestaferðum. Í Þorlákshöfn er jafnframt hafin metnaðarfull sókn í þjónustu við ferðamenn. Hengilssvæðið, Norðurhálsar með Skálafelli og glæsilegsta útsýnisstað héraðsins, forirnar og svæðið vestur fyrir Herdísarsvík hefur nánast öll náttúrufyrirbrigði nema jökul. Það hefur skapað flækjustig að tvö sveitarfélög hafa komið að þessum málum. Besta dæmið er Reykjadalurinn og uppbygging hans sem hefur því miður gengið allt of hægt undanfarin ár.

Nýting jarðhitans hefur skapað mörg tækifæri í Ölfusi og sést það glöggt á þéttbýlinu í Hveragerði sem varð til í kringum hann. Með tilkomu Hellisheiðarvirkjunar er hægt að byggja upp stærri iðnað á svæðinu sem nýtir jarðhitann í framleiðslunni og eru þegar hafin áhugaverð tilraunaverkefni þar en því miður er nánast öll orkan flutt af svæðinu. Þarna eru samlegðartækifæri fyrir sveitarfélögin tvö að berjast fyrir því að orkan verði nýtt í héraði til nýsköpunar í atvinnumálum.

Þó að margt hafi gengið mjög vel í sveitarfélögunum á undanförnum árum er hægt að ná betri árangri með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. Ljóst er að mjög mörg þeirra verkefna sem hér hafa verið nefnd gætu verið komin lengra og væru þegar farin að skila íbúum meiri ábata ef slagkrafturinn til að koma þeim áfram væri meiri.

Áhrif nærsamfélagsins í sameinuðu sveitarfélagi

Við sameiningu sveitarfélaga er líklega mesti ótti íbúa við að áhrif þeirra á sitt samfélag verði minni og fjarlægðin til kjörinna fulltrúa verði meiri. Því er mikilvægt að tryggja áhrif íbúa á nærþjónustu. Í þessu samhengi er vert að hafa í hug að ekki er verið að sameina samfélög heldur stjórnsýslu sveitarfélaga. Í sameinuðu Ölfusi verður áfram Ölfusþorrablót í Ölfussveit, Blómstrandi dagar í Hveragerði og Hafnardagar í Þorlákshöfn svo dæmi séu tekin.

Á Austurlandi þar sem fjögur sveitarfélög voru sameinuð á síðasta ári var einmitt tekið mið af þessu og munu svokallaðar heimastjórnir verða í hverju samfélagi, sem oftast samanstanda af eldri sveitarfélögunum, hafa mikil áhrif á sitt nærumhverfi. Má þar nefna að heimastjórnir munu hafa deiliskipulagsvald á sínu starfssvæði, veita umsagnir og gera tillögur um leyfismál auk þess að hafa umsjón með félagsheimilum, úthluta styrkjum, fara með verkefni náttúruverndarnefnda og gera umsagnir um staðbundnar gjaldskrár. Við sameiningu Hveragerðis og Ölfuss væru slíkar heimastjórnar tilvaldar í þéttbýliskjörnunum tveimur, Þorlákshöfn og Hveragerði.

Valdið er hjá íbúum en ekki kjörnum fulltrúum

Að mati undirritaðra eru kostir við sameiningu Ölfuss í eitt sveitarfélag miklu fleiri en gallarnir. Sameinuð höfum við aflið til vaxtar og það er betra að huga að sameiningu þegar vel gengur hjá báðum sveitarfélögunum eins og staðan er í dag. Tækifærin bíða og með meiri slagkrafti, sem næst með sameiningu Sveitarfélagsins Ölfuss og Hveragerðisbæjar, næst meiri árangur fyrir íbúa en með núverandi fyrirkomulagi.

Rétt er að hafa í huga að þó að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi hafi hafnað sameiningarviðræðum við Hveragerði að þá er valdið hjá íbúum en ekki þeim. Ef talið er að kjörnir fulltrúar ganga ekki í takt við vilja íbúa geta kosningabærir menn krafist funda eða íbúakosninga um tiltekin mál, t.d. um sameiningarmál, sbr. X. kafla sveitarstjórnarlaga. Þannig gætu 10% kosningabærra íbúa Sveitarfélagsins Ölfuss krafist borgarafundar um sameiningarmál og 25% krafist íbúakosninga um málið.

 

Guðmundur Oddgeirsson, bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Ölfusi

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi í Hveragerðisbæ

 

Nýjar fréttir