-4.4 C
Selfoss

Í blíðu og stríðu

Vinsælast

Það er svo merkilegt að það er ekki fyrr en náttúran tekur völdin og veitir okkur innsýn inn í þær heljargreipar sem hún hefur á okkar stórbrotna og fallega landi að við verðum meðvituð um hversu breitt bilið er að verða milli landsbyggðarinnar og borgarbúa. Þetta sést glöggt á þeim fréttum sem fylgja stórum atburðum eins og snjóflóðunum á Vestfjörðum. Þá kemur því miður upp það undarlega skilningsleysi sem elítan á höfuðborgarsvæðinu hefur gagnvart náttúruöflunum og þeim landsmönnum sem lifa í samlyndi við náttúruna frá degi til dags.

Meðal þess sem ég hnaut um í þessari umræðu var tillaga eins þekkts þáttastjórnanda á Ríkisútvarpinu. Hann fékk þá flugu í höfuðið að skynsamlegra væri að flytja fólkið á Neskaupstað en að fjárfesta ofanflóðavörnum. Vörnum sem tryggja eiga að íbúar sem og eigur þeirra séu örugg yfir vetrartímann. Þessi hugmynd RÚV-arans stuðaði marga, eðlilega, enda sýnir hún mikið kaldlyndi gagnvart fólkinu okkar á Norðfirði.

Það er ekkert sjálfsagt við að segja fólki hvar það má og hvar það má ekki eiga heima. Elítan í borginni verður að fara að átta sig á því, annað er ofbeldi. Í kjölfar snjóflóðanna árið 1995 var settur á fót ofanflóðasjóður sem er fjármagnaður með því að fasteignaeigendur greiða viðbótarskatt sem nota á í framkvæmdirnar. Þegar spurt var út í sjóðinn, nú eftir flóðin í janúar, þá kom hins vegar í ljós að um helminginn af því fjármagninu vantaði og enginn ráðamaður virðist geta skýrt hvert peningarnir fóru. Þær varnir sem áttu að vera löngu tilbúnar eru það því ekki og verða ekki í bráð. Það er engin furða að fólkið á þessum óvörðu svæðum sé bæði skelkað og reitt enda hefur það fullan rétt á því.

Ríkisstjórninni þótti þetta þó ekkert sérstakt tiltökumál enda hafa þau svo sannarlega ekki lagt sig í framkróka við að útskýra týnda fjármagnið og seinkun á framkvæmdum fyrir þjóðinni. Þeirra framlag var hins vegar að skella sér skælbrosandi um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar og láta hana flytja sig vestur. Þjóðin tók að sjálfsögðu misjafnlega vel í þetta útspil. Sumum fannst ekki við hæfi að brosa í slíkri ferð. Öðrum gramdist að þyrla Landhelgisgæslunnar væri notuð undir skoðunarferðir ráðherra þar sem hún er neyðartæki en ekki einkaþyrla elítunnar. Enn aðrir vildu heldur sjá tíma þessa fólks varið í að finna fjármagnið sem vantar í ofanflóðasjóðinn. Ég var að einhverju leyti sammála öllu þessu fólki. Mér fannst sárvanta samkenndina og sárvanta skilninginn á því sem raunverulega hafði átt sér stað.

Auðvitað megum við þakka fyrir að ekki fór verr og ekkert mannslíf glataðist að þessu sinni. Það má þó ekki loka augunum fyrir þeirri staðreynd að unglingsstúlka grófst undir í flóðinu og það er mikil mildi og ekki síður hetjudáð björgunarsveitamanna að hún bjargaðist. Stúlkan var heppin en það mun eflaust taka hana einhvern tíma að sleikja sárin og finna til öryggis aftur á heimili sínu.

Af sjö bátum í höfninni á Flateyri var það bara einn bátur, Aldan hans Gísla Jóns Kristjánssonar, sem slapp þegar snjóflóðið féll á höfnina. Vissulega eru bátar dauðir hlutir og við viljum öll frekar sjá skemmda báta en fólk sem grafist hefur í fönn. Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að tryggja afkomu þeirra sem búa á Flateyri líka. Snjóflóðavarnirnar hefðu átt að vernda höfnina. Það kemur svo í ljós við rannsóknir á atburðinum að varnargarðarnir hafi ekki verið hannaðir fyrir flóð sem fór á svo miklum hraða, en fyrir hvað voru þeir þá hannaðir?

Eitt af því mikilvægasta sem við Íslendingar höfum er samkennd hvert með öðru. Í kjölfar snjóflóðanna þá var talað um að við værum öll Vestfirðingar og við værum öll ein fjölskylda. Ég tel það að miklu leyti vera rétt en það er ekki nóg að ríkisstjórnin notist við fögur fyrirheit þegar framkvæmdirnar verða svo eitthvað allt annað.

Ég vil að þeir fjármunir sem vantar í sjóð fyrir ofanflóðavarnir séu fundnir og framkvæmdir hefjist tafarlaust. Ég vil ekki meira tal frá RÚV-örum á hjóli um hvar fólk eigi að búa og hvar ekki. Ég vil styðja við atvinnulíf úti á landi, tryggja að fólkið okkar hafi í sig og á og missi ekki allt sitt á augabragði þegar náttúran lætur á sér kræla. Reykjavík er ekkert betri staður til að búa á en Vestfirðir, Skagafjörður, Austurland eða aðrir staðir á landinu. Það á ekki að taka eina staðsetningu fram yfir aðra heldur á að gera þeim öllum jafn hátt undir höfði. Þetta er það sem ég tel okkur eiga að vinna að saman á næstu misserum. Að verða ekki bara ein stór fjölskylda þegar eitthvað bjátar á heldur vera það alltaf. Því við erum Íslendingar og Íslendingar standa saman í blíðu og stríðu.

Guðmundur Franklín Jónsson

viðskipta- og hagfræðingur

Nýjar fréttir