4.5 C
Selfoss

Er höfundur Njálu fundinn?

Vinsælast

Allar götur síðan ég undirritaður fór að fylgjast með þjóðmálaumræðunni hafa komið upp vangaveltur, í ræðu og riti, um það hver sé höfundur Njálu. Margar tilgátur hafa komið fram en ekki er hægt út frá þeim að staðfesta með óyggjandi hætti hver sé höfundur Njálu.
Síðasta innlegg í þessa umræðu er bók sem Gunnar á Heiðarbrún ritar og fjallar eingöngu um þetta efni. Ég hef ekki lesið þessa bók. En aftur á móti hef ég lesið viðtöl við hann sem birst hafa í blöðunum, bæði Dagskránni og Morgunblaðinu. Í viðtalinu sem birtist í Morgunblaðinu kemur það fram að hann hefur fundið það út við lestur Njálu að höfundur hefur sterkar og hlýjar taugar til Keldna á Rangárvöllum.
Ég tel að það séu ástæður fyrir því. Kem að því síðar.
Það fyrsta sem ég man eftir í þessari umræðu voru margar og langar greinar eftir Helga Haraldsson á Hrafnkelsstöðum sem birtust í dagblaðinu Tímanum þar sem hann fullyrðir að Snorri Sturluson sé höfundur Njálu. Háskólamenntaðir sagnfræðingar töldu það fráleitt að Snorri væri höfundur Njálu og tilgreina einhvern annan sem væri líklegri (man ekki nafnið á honum). Helgi lenti í miklum ritdeilum við þessa fræðimenn sem birtust í Tímanum á sínum tíma. Helgi gaf sig hvergi með þá skoðun, hvorki fyrr né síðar, að Snorri væri höfundur Njálu.
Löngu síðar hitti ég kunningja minn, sem alla tíð hefur búið í Hrunamannahrepp, sem sagði mér að hann og nokkrir félagar hans höfðu eitt sinn hitt Helga þegar hann var orðinn háaldraður. Þeir höfðu sagt við hann „Helgi, þegar þú verður kominn yfir í annan heim þá kemur þú fram hjá miðli og segir okkur hver er höfundur Njálu“. Helgi lofar því og dó ekki löngu seinna. Nú bíða þeir félagar spenntir eftir því að Helgi komi fram á miðilsfundi. Það líða árin og ekkert gerist og eru þeir félagar orðnir vondaufir með að Helgi ætli að efna loforðið. En svo kemur hann allt í einu fram á miðilsfundi og segir stutt og laggott. „Snorri er höfundur Njálu en það er ekki allt rétt sem stendur í henni.“ Auðvitað gat hann ekki farið að breyta sinni skoðun þó hann væri kominn í annan heim.
En ég er á þeirri skoðun að það sérkennilega við höfund Njálu er að hann ritar söguna ekki sjálfur, heldur ræður til þess ritara. Enda maður í anna sömu embætti og hafði lítinn tíma til ritstarfa.
Víkjum nú að næsta þætti. Það var morgun einn fyrir mörgum árum að ég var að hlusta á útvarpið milli kl 10 og 11. Að loknum veðurfréttum kom Arthúr Björgvin Bollason með erindi,
en hann var viðloðandi Sögusetrið á Hvolsvelli og fór að segja frá grúski sínu við að leita að höfundi Njálu. Svo ég sperrti eyrun. Arthúr Björgvin hafði þá nýverið lesið frásögn manns sem var mjög draumspakur. Sá var fæddur í Flóanum, en uppalinn í Biskupstungum hjá vandalausum og lét vel af því. En það er nú önnur saga. Þessi maður hafði þann sérstaka hæfileika að þegar hann lagðist til svefns á kvöldin gat hann sent hugskeyti í andaheiminn og fengið svör við sínum spurningum í draumi. Þegar þessi saga gerist er hann búsettu á Neskaupsstað. Bjó þar í 10 ár. Eitt kvöldið meðan hann bjó þar datt homun í hug þegar hann lagðist til svefns að senda þeim spurningu þarna hinu megin hver væri höfundur Njálu. Hann dreymir um nóttina að hann svífi í vesturátt yfir öræfi og jökla þar til hann er kominn á kunnar slóðir í uppsveitum Árnessýslu og er settu niður á holtið norðaustan við Skálholt, þar sem varðan er núna og snýr baki í staðinn. Það líkar honum illa og vill snúa sér við, en það er honum algjörlega meinað. Þá kemur maður aftan að honum og ritar í vinstri lófa – Leggur 1195 og Björn 1205. Þetta væru höfundar Njálu. Þessi draumspaki maður var ekki alveg viss hvort hann ætti að trúa þessu og fór á Þjóðskjalasafnið að vita hvort hann fyndi einhverjar upplýsingar þar um þessa menn. Honum tókst að finna þar að þeir hefðu verið staðarprestar í Skálholti á þessum tíma. Leggur hét reyndar fullu nafni Þórleggur. Á þessum tíma var Páll Jónsson biskup í Skálholti, fæddur og uppalinn á Keldum. Út frá þessu má álykta að Páll biskup hafi sagt söguna, en látið staðarpresta um skriftirnar.
Að framansögðu er því auðvelt að átta sig á því að höfundur Njálu er mjög staðkunnugur í Rangárþingi. Höfundur er líka talinn kunnugur í Vestur-Skaftafellssýslu. Hvar var Páll prestur áður en hann varð biskup? Það veit ég ekki.
Ég tel nú næsta víst að ekki séu allir trúaðir á það sem fram kemur um þennan draumspaka mann, að hægt sé að senda boð í annan heim og fá upplýsingar um eitt og annað í gegn um drauma. Ég trúi þessu vegna þess að ég hef gert þetta sjálfur og ekki talið ástæðu til að rengja þær upplýsingar sem ég hef fengið. En það þýðir ekki að biðja um hvað sem er.
Samkvæmt ofanrituðu er það alveg ljóst í mínum huga að Njála er rituð í Skálholti um aldamótin 1200. Höfuðstöðvum kirkjunnar á þeim tíma. Höfundur er Páll Jónsson biskup og ritarar tveir áður nefndir staðarprestar.

Ritað á jólaföstu 2019 af gamla fyrrverandi kúabóndanum, Guðna á Þverlæk.

Nýjar fréttir