7.8 C
Selfoss

Kynningarfundur fyrir rafíþróttadeild UMFS haldinn á Selfossi

Vinsælast

Fjöldi áhugasamra einstaklinga voru samankomnir þriðjudaginn 21. janúar sl. í kjallara Vallaskóla til að kynna sér fyrirhugaða stofnun rafíþróttadeildar Ungmennafélags Selfoss í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg og frístundahús Árborgar. Þá finna forsvarsmenn keppninnar fyrir miklum áhuga hjá ungmennum og foreldrum þeirra.

Keyra verkefnið í gang

Mikill hugur er í forsvarsmönnum verkefnisins, Gunnari E. Sigurbjörnssyni, frístunda- og forvarnarfulltrúa Árborgar og Gissuri Jónssyni framkvæmdastjóra Umf. Selfoss. „Við erum búnir að leggja hugmyndina upp og tryggja ákveðið fjármagn inn í verkefnið. Það er verið að útbúa glæsilega aðstöðu fyrir starfsemi deildarinnar í kjallara Vallaskóla. Þá er verið að vinna í því að kaupa fyrsta flokks vélbúnað fyrir spilarana. Nú er í raun ekkert annað en að byrja að hleypa þessu af stokkunum og koma verkefninu í gang af fullum krafti. Það er rétt að koma því á framfæri að við erum að leita af fólki sem tilbúið er að taka þátt í mótun verkefnisins og taka í taumana. Hér þarf fólk í stjórn og fleira og við hvetjum áhugasama til að vera í sambandi við okkur með þetta t.d. á umfs@umfs.is, “ segja Gunnar og Gissur.

Viltu verða þjálfari?

Meðal þess sem við ætlum að bjóða upp á er að foreldrar,  verðandi þjálfarar og aðrir áhugasamir fari í svokallaðan Rafíþróttaskóla sem Rafíþróttasamband Íslands stendur fyrir. Starfið hér á að grundvallast á því sem best gerist í rafíþróttunum um þessar mundir. Ætlunin er að vera með markvissar æfingar, menntaða þjálfara og góða aðstöðu eins og fram kom. Þá er mikilvægt að þjálfarar og aðrir hafi góða grunnþekkingu á málinu. Til að ná markmiðum okkar ætlum við að bjóða þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu eða þjálfa að fara í Rafíþróttaskólann og ná sér í grundvallarmenntun í faginu.

Tækifæri til að bæta umhverfi spilara

Mikil umræða hefur farið fram í samfélaginu um tölvuleikjanotkun og þau áhrif sem hún hefur á börn og ungmenni. Aðspurðir segja Gunnar og Gissur að með því að draga spilara úr herbergjum sínum og einveru í markvissa þjálfun þar sem jafn mikil áhersla er lögð á heilbrigði spilara og jákvætt félagslegt umhverfi þeirra, sé verið að vinna ákveðið grettistak í mörgum tilfellum. „Þeir sem ná langt í tölvuleikjum eru ekki með orkudrykki í annarri og pizzusneið í hinni. Þetta eru afreksíþróttamenn sem hugsa vel um heilsuna á öllum sviðum. Bæði hreyfingu og andlega hlið.“

 

Nýjar fréttir