-7.2 C
Selfoss

Kennsl borin á höfuðkúpu með DNA rannsókn

Vinsælast

Fyrir rúmum 25 árum fannst hluti af höfuðkúpu manns á sandeyrum Ölfusáróss. Á kúpuna vantaði neðri kjálka og einungis ein tönn var eftir í efri góm. Kennslanefnd ríkislögreglustjóra gerði rannsókn á höfuðkúpunni eins og unnt var miðað við þess tíma tækni. Ekki tókst að bera kennsl á það af hverjum höfuðkúpan var og hún sett í geymslu.

Í lok mars á síðasta ári var ákveðið að reyna á ný að bera kennsl á höfuðkúpuna. Tekið var sýni úr kúpunni til aldursgreiningar. Niðurstöður af því bárust í haust og ljóst að beinin voru að líkindum frá árunum um og eftir 1970. Þá var þess freistað að ná nothæfu DNA sýni úr kúpunni og það sent til Svíþjóðar til frekari greiningar. Niðurstaðan barst í janúar og þá kom í ljós að um var að ræða höfuðkúpu Jóns Ólafssonar sem fæddur var 8. júlí 1940. Jón var talinn hafa fallið í Sogið á aðfangadag 1987. Börnum jóns hefur verið kynnt niðurstaða málsins og þau fá jarðneskar leifar föður síns afhentar á allra næstu dögum.

Lögreglan safnar sýnum úr aðstandendum

Fram kemur í pistli Lögreglunnar á Suðurlandi að embættið hafi undanfarið ár tekið DNA sýni úr aðstandendum þeirra sem taldir eru hafa horfið í umdæminu á liðnum árum og ekki fundist. Enn á eftir að fá sýni úr nokkrum einstaklingum að sögn lögreglunnar. Því verkefni verður haldið áfram en fram kemur að þeim lögreglumönnum sem sinna þeirri vinnu hafi verið afar vel tekið af þeim sem leitað hefur verið til. Sýnin eru vörsluð í gagnabanka þar sem unnt verður að bera þau saman við DNA snið þeirra sem finnast hvort sem það er í okkar tíð eða komandi kynslóða.

 

Nýjar fréttir