-2.2 C
Selfoss

Flúðaskóli hlaut Menntaverðlaun Suðurlands 2019

Vinsælast

Menntaverðlaun Suðurlands 2019 sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita voru afhent í tólfta sinn í dag 16. janúar á árlegum hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands en athöfnin fór fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Flúðaskóli hlaut verðlaunin fyrir leiklistarstarf á menntasviði. Í rökstuðning þeirra sem stóðu að tilnefningunni kemur m.a. eftirfarandi fram:

Í Flúðaskóla hafa til fjölda ára verið sett upp metnaðarfull leikverk árlega, annars vegar af 1. – 7. bekk skólans og hins vegar af unglingastigi.

Leiklistarstarfið í Flúðaskóla er stórkostlegt skólaverkefni og gott dæmi um það hvað hægt er að gera í samstilltum hópi þegar honum eru skapaðar aðstæður og traust til að skila góðu starfi, þar sem hver einstaklingur fær að nýta hæfileika sína og tengja þá við áhugasvið sitt. Samstarf við nærsamfélagið er gott og viðtökur íbúa og nærsveitunga til fyrirmyndar.

Það nám sem fram fer með þessu móti er ómetanlegt. Það leggur m.a. grunn að samfélagsþátttöku einstaklinganna, ýtir undir frumkvæði og kjark og er í raun og veru undirstaða þess að félagsstarf þrífist. Börn sem fá slíka reynslu ár eftir ár eiga eftir að bera uppi félagsstarf í því samfélagi sem þau velja sér að vera hluti af síðar á lífsleiðinni. Þessi börn hafa hvað eftir annað með samstöðu að vopni komið því til leiðar sem að var stefnt. Það er dýrmætt veganesti út í lífið.

Forsetafrú Íslands, frú Eliza Reid og Eva Björk Harðardóttir, formaður SASS, afhentu verðlaunin þeim Margréti Larsen, aðstoðarskólastjóra Flúðaskóla, Árna Þór Hilmarssyni grunnskólakennara og fimm nemendum í tíunda bekk skólans.

 

Nýjar fréttir