-11.4 C
Selfoss

GK bakarí opnaði dyrnar á vörutalningardaginn

Vinsælast

Það voru brosandi bakarar sem tóku á móti viðskiptavinum í nýju bakaríi á Selfossi þann 2. janúar 2019. Húsnæðið hefur fengið mikla andlitslyftingu og tekur vel á móti nýjum viðskiptavinum. Það eru bakararnir og vinirnir Kjartan Ásbjörnsson og Guðmundur Helgi Harðarson sem standa á bak við reksturinn og borðið. Blaðamaður renndi við hjá þeim félögum og kynnti sér hvað þeir hafa í bígerð að kynna fyrir sunnlendingum.

Kynntumst á fjölunum hérna

Þegar Guðmundur Helgi er inntur eftir því hvernig ævintýrið byrjaði segir hann: „Þetta byrjaði þannig að ég fæ sumarstarf hérna árið 2011 hjá Óskari. Þannig að fyrsta daginn minn hérna á fjölunum hjá Guðna þá kynnist ég Kjartani og lærði svo að baka. Það eru mikilvægustu tvö samböndin í mínu lífi síðustu ár því síðan að ég byrjaði hérna höfum við verið óaðskiljanlegir og urðum bestu vinir á viku. Þá fann ég mig alveg fáránlega vel í þessu. Vera með eitthvað svona skapandi faktor og í góðum fíling að vinna með strákunum.“ Til þess að gera langa sögu stutta fluttist Guðmundur svo til Reykjavíkur og fór að vinna hjá Brauð og co. og Kjartan bakaði hjá IKEA. „Það var svo einn eftirmiðdag að Kjartan bauð mér á rúntinn, keyrir með mig hingað austur og við tökum einn hring í húsinu. Mér leist ekki á blikuna svona fyrst en við ákváðum að láta slag standa og hér stöndum við í dag,“ segir Guðmundur og brosir breitt.

Viðskiptavinirnir mikilvægastir og við viljum gott samband við þá

Það er auðheyrt að Guðmundur er á höttunum eftir góðu sambandi við viðskiptavini. Bæði hvað varðar verð og að bakaríið verði miðstöð viðskiptavina sem koma til að hugsa, tala saman eða bara spjalla við starfsfólkið. „Fyrir það fyrsta ætlum við að vera með öll okkar spil á borðinu. Okkur langar mikið til að byggja upp gott samband við bæjarbúa. Vera partur af menningunni í bænum. Í fyrsta lagi er varla til sá Selfyssingur sem man að ekki hafi verið bakarí í þessu húsi. Húsið er miðsvæðis í bænum og svo er svo mikilvægt í svona litlu samfélagi að menn séu samþjappaður hópur og okkur langar að vera þar og taka þátt í fjörinu því við erum miklir stemmningsmenn. Þá langar okkur að færa ykkur handverkið og heiðarleikann og færa neytendum vörur sem við erum stoltir af og vitum að muni falla í kramið.

Metnaðurinn í hverja útsöluvöru gríðarlegur

Það er augljóst að Guðmundur og Kjartan eru í starfinu af lífi og sál og langar til þess að færa sunnlendingum gott, háklassa bakkelsi. „Við erum með gott fólk með okkur, með háklassa hráefni og leggjum hjarta og sál í verkefnið og það skilar sér til baka. Það fyrsta sem við gerðum þegar við komum hingað inn var að selja brauð uppsláttarvélina. Það að vinna með eitthvað í höndunum og fylgja því eftir frá því að það var bara hráefni, yfir í að setja það í ofninn, taka það úr ofninum og rétta þér það og þú ferð með það heim og ég veit að það á eftir að færa þér gleði,“ segir Guðmundur.

Vöruúrvalið öðruvísi en hefðbundið bakarí

Vöruúrvalið í GK bakarí er með öðrum hætti en endilega í öllum öðrum bakaríum. Við spurðum Guðmund aðeins út í þetta. „Já, bransinn var kannski svolítið staðnaður þangað til fyrir 3-4 árum síðan var allt dálítið keimlíkt. Fólk í landinu var bara vant  því að í bakaríinu fengist bara bleikur snúður og mjúkt croissant og kjallarabollur. Menn eru nú farnir að þreifa fyrir sér og prófa ýmislegt nýtt. Þökk sé samfélagsmiðlum að einhverju leyti. Það sem okkur langar að gera er að taka okkar spinn á vissa hluti en spinna klassikerana. Þetta er svolítið eins og að fara á tónleika með Eagles. Þú vilt heyra klassíkina, Hotel California, en færð jafnframt að heyra eitthvað nýtt sem er svakalega gott og veist það að þú getur gengið að því vísu að í lokin færðu að heyra Hotel California. Þú verður svo bara að njóta ferðalagsins á meðan. Við ætlum að vera með lifandi vöruúrval, rétt eins og Eagles spilar aldrei sömu lögin kvöld eftir kvöld og vera duglegir að flétta inn einhverju skemmtilegu spinni. Þá verðum við í samstarfi við Korngrís í Árnesi. Þeir skaffa okkur t.d. skinku af öllum tegundum. Það getum við til dæmis þróað á ýmsa vegu. Minn draumur er sá að menn sem koma einu sinni í mánuði í bakaríið viti ekkert endilega að því að hverju þeir ganga. Geti fengið góðan snúð og gott vínarbrauð en svo er bara ýmislegt annað spennandi í boði þannig að þetta verði ekki þreytt eða staðnað. Það heldur okkur sjálfum líka á tánum. Við látum staðar numið hér og þökkum Guðmundi fyrir spjallið og rennum niður síðasta bitanum af stökku, fallegu croissant.

 

Nýjar fréttir