-6.9 C
Selfoss
Home Fréttir Sparibollinn – fegursta íslenska ástarjátningin

Sparibollinn – fegursta íslenska ástarjátningin

0
Sparibollinn – fegursta íslenska ástarjátningin
Verðlaunagripurinn

Ástarsögur hafa gegnum tíðina notið mismikillar virðingar, jafnvel verið flokkaðar sem kvennabókmenntir og froða. Í nútímanum, sem gjarnan litast af ógnum og óhugnaði, fer oft á tíðum óþarflega lítið fyrir ástinni.

Sparibollinn, nefnast ný íslensk bókmenntaverðlaun veitt bestu ástarlýsingunni í íslenskum bókmenntum ár hvert. Lýsingin má standa stök eða vera hluti af stærra verki. Hún má ná til andlegrar ástar og líkamlegrar. Ástar milli karla, kvenna, barna, dýra, ættingja, vina, skipa, flugvéla, fólksflutningabifreiða og svo framvegis. Eina skilyrðið er að hafa komið út á prenti eða í öðru bókarformi á árinu 2019.

Verðlaunin verða veitt í fyrsta skipti á árlegu málþingi Bókabæjanna austanfjalls, sem að þessu sinni eru helgað ástarsögum. Þriggja manna dómnefnd velur síðan úr innsendum tillögum. Dómnefndin í ár er skipuð þeim Eyrúnu Lóu Eiríksdóttur, Hörpu Rún Kristjánsdóttur og Sverri Norland.

Höfundur fegurstu ástarjátningarinnar hlýtur sparibollann, rósumprýddan kaffibolla á fæti. Kaffibollinn er vísun í hina ótæpilegu og lífsfyllandi kaffidrykkju í bókum Guðrúnar frá Lundi. En einnig til þess að allt sem þú þarft er ást, og bolli af góðu kaffi.